„Ég hef orðið fyrir svo mörgum árásum að ég er ekki hrædd lengur,“ segir Vitalina Koval, 28 ára gömul úkraínsk baráttumanneskja fyrir réttindum samkynhneigðra. Hún er ein þeirra kvenna sem lýsa upp myrkrið á Hallgrímskirkju.
Vitalina Koval er ein þeirra sem vekja athygli allra fyrir hugrekki sitt og baráttu fyrir mannréttindum, ekki síst réttindum LGBTI-fólks.
Líkt og segir um hana á vef Amnesty International þá meinar hún hvert orð þegar hún segist vilja jafnan rétt allra. „Einhvern tíma myndi ég vilja sjá Gleðigöngu í heimabæ mínum, Uzhgorod,“ segir hún en hún hefur þurft að gjalda fyrir baráttu sína. Í mars varð hún fyrir árás sex félaga í öfgahreyfingunni Karpatska Sich þar sem hún tók þátt í mótmælum á alþjóðlegum degi kvenna í Úkraínu. Mennirnir helltu rauðri málningu yfir hana, meðal annars í augu hennar án þess þó að valda varanlegum skaða á sjón.
Vitalina Koval hefur aldrei farið leynt með kynhneigð sína en hún er lesbía og starfar á miðstöð LGBTI í Uzhgorod.
Koval var enn útötuð í málningu þegar hún stormaði inn á lögreglustöð í bænum til þess að kæra árásina. Þegar hún kom þangað sátu árásarmennirnir í biðstofunni. Lögreglumaðurinn í afgreiðslunni krafðist þess að hún segði heimilisfang sitt hátt og snjallt þannig að árásarmennirnir fengu upplýsingar um hvar hún býr.
Lögreglan neitaði að skrá árásina sem hatursglæp og það tók nokkrar klukkustundir að fá hana yfir höfuð til að gera skýrslu um árásina.
Næstu daga bárust henni írekaðar hótanir frá félögum í Karpatska Sich og nokkrum dögum síðar réðust félagar í samtökunum á tvo aðgerðarsinna sem höfðu tekið þátt í mótmælunum ásamt Koval. Í kjölfarið ákvað Koval að fara að heiman um tíma og býr hún nú í Kænugarði þar sem ekki er óhætt fyrir hana að fara heim til Uzhorod.
Á vef Amnesty International kemur fram að stjórnvöld í Úkraínu hafi ítrekað brugðist LGBTI-fólki og leyft öfgahópum að dreifa hatri og ofbeldi í þeirra garð.
Frá því í apríl í fyrra hefur Amnesty International fengið yfir 30 tilkynningar um árásir á baráttufólk fyrir mannréttindum af hálfu öfgahópa í Úkraínu. Í öllum tilvikum hafa árásarmennirnir sloppið við refsingu.
Hér er hægt að skrifa undir bréf á vef Amnesty International