Skipuleggjendur mótmælanna á Austurvelli í dag hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði tekið upp án tafar. Einnig er krafist tafarlausra uppsagna allra þeirra þingmanna sem komu að „Klausturs-málinu“, bæði úr flokkum sínum og frá störfum sínum á Alþingi.
Krafist er tafarlausrar rannsóknar á „lögbrotum og brotum á siðareglum Alþingis“ sem hafi komist upp um í upptökunum af barnum Klaustri.
Dæmin sem skipuleggjendurnir nefna eru:
Undir þetta skrifa Andri Sigurðsson, Alexandra Kristjana Ægisdóttir, Arndís Jónasdóttir og Júlía Sveinsdóttir.
Kvennahreyfingin krefst afsagna „Klausturs-hópsins, og þess að allir þingmenn sitji í gegnum tíu klukkustunda jafnréttisfræðslu, sem verði sameiginlega unnin af þeim félagasamtökum sem best þekkja til.
Öryrkjabandalag Íslands segist einnig í sinni yfirlýsingu vilja afsagnir þingmannanna. „Sú fyrirlitning á fólki sem hefur komið fram í orðum tíunda hluta þingheims, sýnir að þingmennirnir eru með öllu ófærir um að gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning. Þeir verða að taka pokann sinn. Flóknara er það ekki.“
Samtökin ´78 eru einnig harðorð í garð þingmannanna. „Samtökin ´78 skora á þingmenn og stjórnmálaflokka að samþykkja aldrei kvenfyrirlitningu, hinseginfóbíu eða fötlunarfordóma. Eitruð orðræða grefur undan öryggi jaðarsettra hópa og við minnum ykkur á að ábyrgð ykkar er gífurleg.“
NPA-miðstöð skorar á alla kjörna fulltrúa að setja sig betur inn í réttindabaráttu fatlaðs fólks, þeir hlusti á það sem það hefur að segja og virði mannréttindi þess og mannlega reisn. „Eitt af fyrstu og auðveldum verkum sem Alþingisfólk gæti notað til að sýna vilja í verki er að ganga á eftir dómsmálaráðherra með að fullgilda valkvæðan viðauka við samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveðið var á um að gert yrði fyrir árslok 2017 í þingsályktunartillögu þess efnis.“
Femínistafélag Háskóla Íslands segir að horfast þurfi í augu við að Ísland sé ekki paradís fyrir konur, þrátt fyrir að samkvæmt ýmsum stöðlum sé Ísland besti staðurinn í heiminum, meðal annars fyrir konur. „Þetta er ekki staðreynd sem við ættum að stoppa við, klappa okkur á bakið, og halda síðan ástandinu í sama horfi. Við erum skást, því ástandið er hvergi nógu gott," segir í yfirlýsingunni.
„Virðing fyrir öllum þegnum landsins ætti að vera frumskilyrði fyrir því að starfa fyrir hönd þjóðarinnar á hæsta stjórnstigi hennar. Það er ekki hægt að treysta einstaklingum sem vanvirða með orðum sínum annað fólk. Þeir munu aldrei getað talað fyrir eða skilið hagsmuni þeirra sem þeir níða. Þessir þingmenn eru óhæfir til þess að tala málum kvenna, og þannig hálfrar þjóðarinnar, og ættu því að segja af sér hið fyrsta.“