Kona kvartaði yfir meintu kynferðislegu áreiti sem hún varð fyrir af hálfu flugþjóns í flugi á vegum íslenska flugfélagsins Icelandair í janúar á þessu ári. Konan sendi inn kvörtun til flugfélagsins en fékk svar fjórum dögum síðar á þá leið ekkert yrði aðhafst í málinu og rannsókn þess væri lokið.
Yfirflugfreyja í fluginu vísaði kvörtun konunnar á bug með þeim skýringum að flugþjónninn væri samkynhneigður.
Þetta kemur fram á vefsíðunni www.air101.co.uk
Eftir að konan fékk svar frá Icelandair þess efnis að flugfélagið myndi ekki beita sér í málinu sneri hún sér til samgönguyfirvalda í Bandaríkjunum sem tók kvörtunina til athugunar. Samkvæmt heimildum mbl.is var ekki talið að kvörtunin ætti við rök að styðjast.
Neytendasamtökin FlyersRights.org hafa birt tuttugu kvartanir sem samgönguyfirvöldum í Bandaríkjunum hafa borist vegna meints kynferðislegs áreitis sem átti sér um borð í flugvélum á leið til og frá Bandaríkjunum. Gögnin fengust afhent á grundvelli upplýsingalaga þar í landi.
Kvörtun konunnar byrjar á því að hún segist hafa verið snert á óviðeigandi hátt af karlkyns flugþjóni í flugi frá Íslandi til New York þann 8. janúar á þessu ári. „Í fyrsta lagi starði hann á mig frá upphafi og svo í hvert skipti sem hann talaði við mig þá snerti hann öxlina og handlegginn á mér. Þegar hann kom að færa mér salat þá hófst hann handa við að taka af mér teppið til að taka upp bakkann úr flugsætisarminum og við það hellti hann ávaxtasafa yfir mig alla. Hann baðst ekki einu sinni afsökunar,“ segir hún.
Konan segir flugþjóninn hafa komið til sín um fimmtán mínútum síðar og nánast klifrað yfir hana til taka matseðil upp af gólfinu. Við það hafi hann þrýst líkama sínum að hnjám konunnar. „Afsakaðu mig, þú mátt ekki gera þetta. Þú verður að afsaka þig og biðja mig um að gera þetta fyrir þig,“ útskýrði konan fyrir flugþjóninum og tók í framhaldinu matseðilinn upp af gólfinu og afhenti flugþjóninum.
„En það var annað blað á gólfinu og hann teygði sig aftur yfir mig til að taka það upp og þrýsti líkama sínum að hnjánum á mér og mitti. Ég sagði honum að hætta þessu en hann gerði það ekki. Mér fannst verulega á mér brotið og upplifði mig varnarlausa,“ segir í framhaldinu.
Eftir þessar lýsingar segir í kvörtuninni að konan hafi tilkynnt um atvikið til Icelandair í gegnum Twitter sem og látið yfirflugfreyjuna vita. Hún segir að í stað þess að taka kvörtun hennar til greina hafi yfirflugfreyjan vísað henni á bug með því að segja: „Hann hefur ekki áhuga á þér, hann hefur áhuga á karlmönnum.“
Þá lýsir konan því hvernig starfsfólkið hafi látið hjá líða að færa henni vegan salat þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um það en þess í stað boðið henni máltíð fyrir kjötætur og að viðmótið sem henni mætti verið kaldranalegt og dónalegt.
Þegar hún loksins fékk máltíð við sitt hæfi hafi það svo verið sami flugþjónn og hún hafði áður kvartað yfir sem færði henni hana og við það hafi flugþjónninn aftur nýtt tækifærið til að snerta hana á óviðeigandi hátt.
„Þetta var hörmuleg lífsreynsla,“ segir konan ennfremur í kvörtuninni og endar hana á því að segja að viðbrögð Icelandair hafi verið ófagleg og að flugþjónninn sé enn starfandi fyrir flugfélagið.
Eins og áður segir er þessi kvörtun ein af tuttugu sem FlyersRights.org hafa birt eftir að hafa fengið þær afhentar á grundvelli upplýsingalaga í Bandaríkjunum.
„Þessar kvartanir lýsa með nákvæmum hætti hvers konar hegðun er að eiga sér stað í farþegaflugum í auknum mæli – sérstaklega í lengri farþegaflugum þar sem boðið er upp á áfengi og sérstaklega gagnvart konum sem ferðast einar. Þessar kvartanir eru lítið sýnishorn af hundruð þúsunda tilvika þar sem kynferðisleg áreitni á sér stað og allt of sjaldan er þau tilkynnt eða saksótt vegna þeirra,“ segir Paul Hudson, formaður FlyersRight.org.
„Viðurlög vegna kynferðisbrota í farþegaflugum getur varðað allt að 10 ára fangelsisvist auk sekta samkvæmt alríkislögum. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og alríkislögreglan hafa slík mál í sinni forsjá en vegna þess að flugfélögum er ekki skylt að tilkynna slík brot eða halda skrá yfir þau er erfitt fyrir brotaþola að fá brotin rannsökuð,“ segir Hudson einnig.