„Ef hann heldur sama dampi ætti hann að ná þessu,“ segir Heimir Þór Árnason, bróðir Einars Hansberg, sem nú er rúmlega hálfnaður með 500 kílómetra langan róður til styrktar Kristínu Sif Björgvinsdóttur, sem missti eiginmann sinn á dögunum, og fjölskyldu hennar.
Markmið Einars er að róa kílómetrana 500 innan 50 klukkustunda, en róðurinn hófst í stöð Crossfit Reykjavík síðdegis í gær. Einar rær að jafnaði fimm kílómetra í einu og tekur fjögurra mínútna langar pásur á milli.
„Það komu hingað sjúkraflutningamenn og tóku stöðuna á Einari áðan, könnuðu blóðsykur, púls, söltun og annað, og þeir gáfu honum tíu í einkunn. Það var bara eins og hann væri nýbyrjaður að róa,“ segir Heimir. „Nú er þetta bara hausinn. Hann vissi að það yrði aðaláskorunin.“
Á meðan mbl.is var með Heimi á línunni skömmu fyrir klukkan 19 fékk hann merki um að bróðir hans hefði brotnað niður. „Það er búið að gerast áður,“ segir Heimir.
„Ég er bróðir hans og þekki hann vel og það er allt í lagi þegar það gerist. Hann fer langt niður og við tökumst á við það, það er rosalega mikið af góðu fólki hérna. Hann hleypir þessu út og fær nýjan kraft, núllstillist og fer aftur að vinna upp á við,“ útskýrir Heimir.
Fyrir utan það að vera fjáröflun þá er markmiðið með áskoruninni einnig að vekja athygli á forvarnarverkefninu Útmeð‘a, sem er ætlað að stuðla að geðheilsu og hvetja fólk til þess að tjá sig um andlega líðan og leita sér aðstoðar þegar á þarf að halda.
Aðstandendur áskorunarinnar hvetja fólk til að mæta í Crossfit Reykjavík til að sýna Einari stuðning. „Það er fullt af róðrarvélum hérna og það er öllum velkomið að koma, hvort sem þeir eru meðlimir í Crossfit Reykjavík eða ekki. Ef það er laus vél þá má setjast á hana og byrja. Það sem er að gefa honum mestu orkuna er að sjá ný andlit koma hérna inn.“
„Við finnum fyrir miklum samhug og hvað allir eru tilbúnir að koma og leggja sitt af mörkum. Flestir koma hérna og leggja smátt af hendi til styrktar og róa í leiðinni.“
Heimir segir að þó að ætlunin sé að klára kílómetrana 500 innan 50 klukkustunda sé auðvitað aðalmarkmiðið að klára þetta. „Hann ætlar að klára þetta þó hann verði hérna langt fram á nótt á morgun.“
„Það er að koma erfiður kafli, síðasta nóttin og það getur allt gerst. Það getur hægst á honum, hann gæti viljað taka lengri pásur. Áætlunin miðað við hraðann núna er að hann klári klukkan 17 á morgun, en svo verður maður bara að sjá til.“
Fyrir þá sem vilja leggja Einari og Kristínu Sif og fjölskyldu lið er minnt á styrktarreikninginn 0326-26-003131 á kennitölu 021283-3399. Þá eru allir hvattir til þess að mæta í Crossfit Reykjavík og sýna Einari stuðning í verki. Hægt er að fylgjast með Einari á Facebook og í beinni á vef K100.