Eigendur veitingastaðarins Jómfrúin við Lækjargötu þurftu aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag til að koma smurbrauði, eða svokölluðu smørrebrød, í samkvæmi þar sem Margrét Þórhildur Danadrottning var á meðal gesta.
Lögreglan hafði víða lokað fyrir umferð um miðbæinn vegna hátíðarhalda í tilefni fullveldisafmælis Íslands og því þurfti Jómfrúin að bregðast við þannig að drottningin fengi smurbrauðið sitt í tæka tíð.
„Þetta var alveg nauðsynlegt. Ég hefði verið mjög sveittur ofan á allt annað sem ég þarf að standa í í dag ef ég hefði þurft að hlaupa með þessa kassa fótgangandi. Maður þurfti að geta nýtt sér samgöngur til að komast á áfangastað því þetta var þannig magn,“ segir Jakob E. Jakobsson, framkvæmdastjóri og annar eiganda Jómfrúarinnar, í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Margrét Danadrottning er stödd hérlendis á vegum íslenskra stjórnvalda og mun hún ávarpa gesti í Eldborgarsal Hörpu í kvöld.
Alls voru átta tegundir af smurbrauði í snittuformi útbúnar fyrir drottninguna og er þetta í fyrsta sinn sem Jómfrúin þjónustar hana. „Við erum auðvitað sendiherrar danskrar matarmenningar og danskrar menningar yfirhöfuð í Reykjavík, þannig að það er kannski ekki skrítið að drottningin vilji tékka á þessum „ambassadorum“ sínum,“ bætir Jakob við, eldhress.
„Við lifum í voninni um að fá símtal frá dönsku hirðinni um það hversu ánægð hún hafi verið, það væri gaman.“