Baldur Arnarson
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir hugmyndir uppi um að einkaaðilar fjármagni Sundabraut með veggjöldum. Horft sé til Hvalfjarðarganga. Rætt hafi verið um milljarðatugi í þessu sambandi.
Ríkisstjórnin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hyggjast verja tugum milljarða í samgöngumannvirki á svæðinu á næstu 15 árum.
Þetta má lesa úr tillögum viðræðuhóps ríkis og sveitarfélaga. Með því lýkur tíu ára stoppi á framkvæmdum á svæðinu sem samið var um árið 2012.
Samkvæmt tillögunum er þörf á tæplega 52 milljarða viðbótarfjárveitingu við fyrri samgönguáætlun. Meðal stofnvegaframkvæmda eru mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar 2019-23 og lagning Miklubrautar í stokk 2025-29.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Ingi að líta beri á fyrsta þriðjung þessa tímabils, árin 2019-2023, sem aðgerðaáætlun. Framhaldið muni skýrast síðar varðandi síðari hluta tímabilsins. Alls verði varið 80-90 milljörðum til uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu til 2033.