„Vil ekki skíthæla á Alþingi“

„Landvættirnir fjórir eru: Græðgi, frændhygli, hagsmunagæsla og flokkshygli,“ sagði Páll …
„Landvættirnir fjórir eru: Græðgi, frændhygli, hagsmunagæsla og flokkshygli,“ sagði Páll Kristjánsson í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil hafa heiðarlegt fólk á Alþingi, ég vil ekki skíthæla á Alþingi. Ef einhver þeirra var saklaus þá hefði hann átt að labba upp frá borðinu,“ sagði Páll Kristjánsson hnífasmiður sem mættur var á Austurvöll til að krefjast afsagnar sex þingmanna vegna Klaustursmálsins svokallaða.

„Veistu, ég þykist vera kjaftfor en orðbragð sem fólk lét þarna falla hefur ekki verið til í huga mér áður, bætti Páll við og var auðsjáanlega hneykslaður.

Mótmæltu mannfyrirlitningu og fordómum

Boðað var til mótmælanna „í tilefni af þeim yfirgengilegu fordómum og mannfyrirlitningu sem hópur þingmanna hafði frammi á fundi sínum á Klaustursbarnum í Templarasundi,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum mótmælanna.

„Almenningur á Íslandi lætur ekki bjóða sér svona talsmáta og viðhorf meðal þingmanna eða annarra starfsmanna sinna. Við erum öll jöfn og eigum að njóta sömu réttinda og virðingar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Mótmælin voru friðsamleg og fjölmenn – Austurvöllur var þétt skipaður mest allan tímann.  Á meðan fundinum stóð var vindasamt og nístandi kuldi en þrátt fyrir það var fólki heitt í hamsi, sérstaklega þeim sem stóðu fremst við sviðið.

„Þetta er siðrof“

„Ég er að mótmæla fyrir dætur mínar, fyrir eiginkonu mína, mig sjálfan, samkynhneigða og aðra minnihlutahópa. Þetta er siðrof – það er skurður milli þings og þjóðar. Orðræðan á að breytast og allt á að breytast,“ sagði Bubbi Morthens tónlistarmaður sem tók vel undir ræður þeirra sem tóku til máls í dag.

Hann eins og flestir sem mbl.is talaði við krafðist afsagnar allra sex þingmanna sem sátu á Klaustri og taldi engu skipta hver talaði mest eða hæst.

Bubbi Morthens tónlistarmaður.
Bubbi Morthens tónlistarmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðbrögðin hafa einkennst af hroka

„Þarna er valdamikið fólk sem hefur látið umræðuna snúast um sína upplifun á málinu og við eigum að vera einblína á raddir þeirra sem hafa verið kúgaðir í gegnum tíðina og raddir þeirra sem talað var niður til í þessum umræðum þingmannanna,“ sagði Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi í samtali við mbl.is áður en mótmælin hófust en hún var ein af þeim sem tóku til máls í dag.

Það sem stendur upp úr í Klaustursmálinu að hennar mati eru viðbrögðin eftir að greint var frá málinu í fjölmiðlum og þær afsakanir sem hafa verið notaðar.

„Manni finnst ýmislegt þar einkennast af hroka og maður verður ekki var við eins mikla auðmýkt og maður hefði búist við. Það virðist allt gert til að verja hegðun þeirra sem þarna voru,“ bætti hún við áður en hún hélt í átt að sviðinu.

Fjölmennt en friðsamlegt á Austurvelli í dag.
Fjölmennt en friðsamlegt á Austurvelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert