Einar Hansberg var ótrúlega hress þegar blaðamaður mbl.is kom við Crossfit Reykjavík um sex leytið í morgun. Þá hafði hann lagt að baki rúmlega 370 kílómetra af þeim 500 sem hann ætlar að róa til styrktar Kristínu Sif og fjölskyldu.
„Það eru bara tæpir 130 kílómetrar eftir,“ sagði Einar snemma í morgun en hann er svo sannarlega ekki einn að róa því fjölmargir hafa lagt málefninu lið og þegar blaðamaður var í Crossfit Reykjavík snemma í morgun var salurinn fullur af fólki sem tekur þátt í að styðja við Kristínu Sif Björgvinsdóttur og börn hennar.
Markmið Einars í upphafi var að róa kílómetrana 500 innan 50 klukkustunda, en róðurinn hófst í stöð Crossfit Reykjavík síðdegis á föstudag. Hann segir að ekki sé lengur horft til þess að ljúka verkefninu innan 50 tíma heldur að ljúka því.
Í lok október missti Kristín Sif, einn þáttarstjórnenda Ísland vaknar á K100, manninn sinn, mann á besta aldri skyndilega. Kristín hefur verið mjög opinská um sorgina og áfallið sem þessu fylgir og fundið huggun í að tjá sig um málið. Hún hefur meðal annars opnað sig um þá nöturlegu staðreynd að fjölmargir karlmenn kjósa að kveðja þennan heim þar sem þeir treysta sér ekki til að horfast í augu við lífið, að því er fram kemur í frétt K100.
Aðstandendur áskorunarinnar hvetja fólk til að mæta í Crossfit Reykjavík til að sýna Einari stuðning. „Það er fullt af róðrarvélum hérna og það er öllum velkomið að koma, hvort sem þeir eru meðlimir í Crossfit Reykjavík eða ekki. Ef það er laus vél þá má setjast á hana og byrja. Það sem er að gefa honum mestu orkuna er að sjá ný andlit koma hérna inn,“ sagði bróðir Einars, Heimir Þór Árnason, sem mbl.is ræddi við í gær.
Ekki er úr vegi að óska Kristínu Sif til hamingju með afmælið en hún á afmæli í dag.
Fyrir þá sem vilja leggja Einari og Kristínu Sif og fjölskyldu lið er minnt á styrktarreikninginn 0326-26-003131 á kennitölu 021283-3399. Þá eru allir hvattir til þess að mæta í Crossfit Reykjavík og sýna Einari stuðning í verki. Hægt er að fylgjast með Einari á Facebook og í beinni á vef K100.