„Hann hringdi til að biðjast afsökunar og jafnframt útskýra fyrir mér hvernig ég virtist hafa misskilið þetta allt,“ skrifar Freyja Haraldsdóttir um símtal sem hún fékk frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í dag.
„Í stuttu máli útskýrði hann fyrir mér að þau orð sem hefðu verið látin falla væru ekki fötlunartengd, eða til þess ætluð að gera grín að fötlun minni, heldur hefðu þau fallið vegna þess að pólitískar skoðanir mínar færu mjög í taugarnar á Gunnari Braga Sveinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, „og fleirum“.“
Pistill Freyju birtist á Kjarnanum, en þar segir hún undanfarna daga hafa verið sér erfiða, nógu erfiða til þess að hún treysti sér ekki á Austurvöll í gær, en þar hafi komið fram að enginn þingmaður sem sat á Klaustri bar hafi beðið hana afsökunar. Á Klaustursupptökunum svokölluðu má meðal annars heyra þingmenn líkja eftir sel þegar minnst er á Freyju og hún uppnefnd Freyja eyja.
„Hann útskýrði að selahljóðin hefðu líklega verið stóll að hreyfast og að uppnefnið Freyja eyja hefði orðið til þegar fjarlægja þurfti vegg (sem hann kallaði eyju) af skrifstofu Miðflokksins vegna aðgengis. Veggurinn hefði þá fengið þetta viðurnefni.“
Freyja segir að ekki sé um afsökunarbeiðni að ræða þegar beðist sé afsökunar en samtímis reynt að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað.
Að líkja henni við dýr og uppnefna hana, og vegg, Freyju eyju, í kjölfar aðgengisbreytinga sé augljóslega eins fötlunartengt og það geti orðið.
„Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggjast á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna.“
Freyja frábiður sér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til hennar og reynir að útskýra fyrir henni hvað fötlunarfordómar séu og hvað ekki.