Ummælin sem þingmenn Miðflokks og Flokk fólksins létu falla á veitingastaðnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn og náðust á upptöku hafa vakið athygli fyrir utan landssteina og í dag birti breska ríkisútvarpið ítarlega umfjöllun um málið.
Í frétt BBC er sagt frá því að íslenskir kjósendur krefjist þess að þingmennirnir sex sem áttu í hlut segi af sér. Þá er bent á að Ísland hafi lengst af verið í fararbroddi þegar kemur að réttindum kvenna og að hér sé kona í embætti forsætisráðherra.
Í fréttinni segir að íslenska þjóðin sé í áfalli og þá er sérstaklega fjallað um þegar þingmennirnir gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi þingmanni, meðal annars með því að herma eftir sel þegar Freyja barst í tal. Blaðamaður BBC ræðið við Bryndísi Snæbjörnsdóttur, formann Landssamtaka Þroskahjálpar, þar sem hún segir ummælin um Freyju vera hatursorðræðu.
Minnst er á að fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sé einn þeirra þingmanna sem sat á barnum þetta kvöld og er stjórnmálasaga hans og tengsl við Panama-skjölin rifjuð stuttlega upp. Einnig er sagt frá afsökunarbeiðni Sigmundar til Freyju sem telur hana ekki fullnægjandi þar sem beðist sé afsökunar en samtímis reynt að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað.
Þá er einnig sagt frá mótmælunum sem haldin voru á laugardag „í telfni af þeim yfirgengilegu fordómum og mannfyrirlitningu sem hópur þingmanna hafði frammi á fundi sínum á Klaustursbarnum í Templarasundi,“ eins og fram kom í tilkynningu frá skipuleggjendum mótmælanna.