„Þetta var ekki stóll. Þetta var ekki hjól. Þetta var örugglega hjólastóllinn minn að skransa fyrir utan Klaustur.“ Þetta kemur fram í Twitter-færslu Freyju Haraldsdóttur sem hún birti í kvöld.
Á Klaustursupptökunum svokölluðu má meðal annars heyra þingmenn líkja eftir sel þegar minnst er á Freyju og hún uppnefnd Freyja eyja. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist ekki hafa verið að gera grín að fötlun Freyju og í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði hann að umrætt selahljóð hefði getað „verið reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann“.
Áður hafði Sigmundur hringt í Freyju og beðið hana afsökunar. Freyja sagði afsökunina hins vegar ekki vera fullnægjandi þar sem að samtímis hefði hann reynt að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað.
Af Twitter-færslu Freyju að dæma gefur hún einnig lítið fyrir útskýringar Sigmundar í kvöld.
Þetta var ekki stóll. Þetta var ekki hjól. Þetta var örugglega hjólastóllinn minn að skransa fyrir utan Klaustur. #Klausturgate
— Freyja Haraldsdóttir (@freyjaharalds) December 3, 2018