„Hann sat grátandi að skoða skilaboð og samfélagsmiðla, því hann vissi ekkert hvað var að gerast meðan á þessu stóð,“ segir Heimir Árnason, bróðir Einars Hansberg Árnasonar, sem réri um helgina 500 kílómetra til styrkar Kristínu Sif Björgvinsdóttur og börnum hennar, en hún missti mann sinn skyndilega í lok október.
Heimir heyrði stuttlega í konu Einars fyrr í dag til að kanna hvernig honum liði og þá var hann nývaknaður til að næra sig. Hann notaði líka tækifærið til að byrja að kíkja á öll skilaboðin og hvatningarorðin sem honum hafa borist. „Konan hans sendi mér mynd af honum þar sem hann var að borða vínarbrauð og þá leit hann bara vel út.“
Einar mun hitta lækni í dag sem mun taka líkamlega stöðu á honum, en sjúkraflutningamenn gerðu ýmis próf á honum í gær sem komu mjög vel út að sögn Heimis.
Hann segir bróðir sinn hafa unnið ótrúlegt afrek fyrir góðan málstað, en markmið hans var að leiða stuðning CrossFit samfélagsins handa Kristínu og jafnframt hvetja til umræðu um sjálfsvíg ungra karlmanna.
„Ég held að það séu rosalega margir sem átta sig ekki á því hvað hann var að gera. Ég talaði við fólk sem mætti þarna og var að róa sinn lengsta róður, var kannski að taka maraþon, en það sagðist ekki geta setið mínútu lengur,“ segir Heimir um aðra í salnum sem réru Einari til samlætis. En til að setja hlutina í samhengi þá eru 500 kílómetrar um 12 maraþonlengdir.
Heimir var á staðnum allan tímann á meðan Einar réri og segir hann hafa verið ótrúlega agaðan. „Þegar hann tók fjögurra mínútna hvíldartímana sína þá fórum við með hann afsíðis þar sem hann lagðist niður, svo var breitt yfir hann og kælipokar settir á hann. Svo fórum við bara fram og ég var með skeiðklukku í gangi.“
Heimi fannst alltaf jafn erfitt að þessum fjórum mínútum liðnum að ýta við bróður sínum. „En það var alveg magnað hvernig hann tók því. Ég snerti hann rólega og þá komu strax viðbrögð. Þau voru aldrei þannig að hann yrði að hvíla sig lengur, heldur stóð hann strax upp. Hann var búinn að innprenta það í hausinn á sér að standa strax upp.“
Fjölmargir lögðu átakinu lið, til dæmis með því að róa með Einari og mæta á staðinn og hvetja hann til dáða. Fjölskyldan var honum að sjálfsögðu til halds og traust.
„Þegar hann átti tíu kílómetra eftir þá kom konan hans til mín og við áttum innilega stund. Hann sá það og kom til mín, en það var ótrúlegt hvað hann var sterkur þá. Hann sagði að við skyldum bara klára þetta og hleypa þessu svo út,“ segir Heimir stoltur af bróður sínum.
„Þegar hann átti þrjú eða fjögur tog eftir þá stóð ég upp við hann og öskraði á hann að toga. Þegar hann tók síðasta togið þá sleppti hann keflinu og hágrét.“ Það er því ljóst að miklar tilfinningar voru í spilinu, ekki bara hjá Einari heldur líka fólkinu sem stendur honum næst.
„Það komu auðvitað mjög margir þarna en ég veit að honum þótti mjög vænt um að sonur hans var við hliðina á honum og réri allan tímann á meðan hann tók síðustu tíu. Hann hætti aldrei að toga og var orðinn vel sveittur.“
Þegar afrekinu var lokið fengu feðgarnir að eiga smá stund saman áður en aðrir fengu tækifæri til að fagna með Einari. „Þeir grétu saman og ég verð eiginlega hálf klökkur að segja frá þessu,“ segir Heimir en hann viðurkennir að hafa brotnað saman nokkrum sinnum um helgina.
Þegar Einar var búinn að eiga stund með fólkinu sínu var eins og hann væri búinn að koma öllum tilfinningunum út úr kerfinu, að sögn Heimis. „Þá gekk hann bara um og gaf fólki „high five“ en var fljótlega tekinn afsíðis í læknatékk.“ Heimir segir bróðir sinn þó hafa virkað mjög hressan að því loknu þar sem hann spjallaði við fólk og grínaðist. „Það var magnað að upplifa þetta,“ segir Heimir að lokum.