Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist ekki hafa verið að gera grín að fötlun Freyju Haraldsdóttur á Klaustri Bar 20. nóvember. Hann hafi aldrei gert það og hinir þingmennirnir á staðnum hafi heldur aldrei gert það.
Þetta kom fram í viðtali við Sigmund í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Sigmundur segir að sér þyki sérstaklega leiðinlegt að Freyja hafi dregist inn í málið. Freyja fjallaði um málið í pistli á Kjarnanum en Sigmundur hringdi í hana til að biðjast afsökunar og jafnframt útskýra hvernig hún virðist hafa misskilið þetta allt.
„Hann útskýrði að selahljóðin hefðu líklega verið stóll að hreyfast,“ skrifar Freyja meðal annars. Hún segir að ekki sé um afsökunarbeiðni að ræða þegar beðist sé afsökunar en samtímis reynt að hrútskýra, eftiráskýra og hreinlega ljúga til um það sem átti sér stað.
Fjallað hefur verið um það í dag að hljóðið komi úr mannshálsi. Sigmundur hélt því þó fram i kvöldfréttum að um umhverfishljóð hafi verið að ræða, enda hafi enginn fipast við hljóðið.
„Samtalið heldur áfram og enginn fipast eins og hefði gerst ef einhver hefði leyft sér að gera selahljóð eins og haldið hefur verið fram,“ segir Sigmundur. Hann bætir því við að Anna Kolbrún, þingmaður Miðflokksins, muni eftir því að hafa heyrt hljóð utan frá sér. Auk þess heyrist hljóðið hærra en samræðurnar og að því leyti segir Sigmundur að það komi úr hinni áttinni.
„Þetta gat verið reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann. Þetta fipaði í engu umræðunni og breytti engu í henni,“ segir Sigmundur. „Þetta á sínar skýringar en engin þeirra snýr að því að gert hafi verið grín að fötlun Freyju.
Sigmundur segist enn fremur ekki hafa íhugað stöðu sína á þingi eftir að upptökurnar frá Klaustri komu fram í fjölmiðlum. „Ef ég ætti að gera það vegna þessa máls þá hefði ég þurft að gera það mörgum sinnum áður, því miður. Það er það sem gerir þetta enn þá verra að maður hefur svo oft setið í svona samkvæmi.“