Tilnefningar til Fjöruverðlauna

Í flokki fagurbókmennta eru tilnefndar Ungfrú Ísland eftir Auði Övu …
Í flokki fagurbókmennta eru tilnefndar Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur; Kláði eftir Fríðu Ísberg og Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Samsett mynd

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, voru kynntar í Borgarbókasafninu í Grófinni nú á sjötta tímanum. Alls eru níu bækur tilnefndar, þrjár í hverjum flokki, en flokkarnir skiptast í barna- og unglingabókmenntir, fagurbókmenntir og fræðibækur og rit almenns eðlis. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2019.

Samlíðan og metnaður

Í flokki barna- og unglingabókmennta eru tilnefndar, í stafrófsröð höfunda, bækurnar Lang-elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur; Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Sjúklega súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson.

Dómnefnd skipuðu Arnþrúður Einarsdóttir, Guðrún Jóhannsdóttir og Sigrún Birna Björnsdóttir.

Í umsögn dómnefndar um Lang-elstur í leynifélaginu segir: „Sagan er viðburðarík og umfjöllunarefnið vekur vangaveltur hjá lesendum og tækifæri til útskýringa og samtals um tilfinningar og líðan, samhyggð og íslenskt mál. Myndskreytingar eru fallegar og styðja vel við textann.“

Um Fíasól gefst aldrei upp segir: „Höfundur dregur upp sannfærandi myndir af átökum og uppgötvunum í lífi Fíu Sólar, breyskleika hennar og styrk. [...] Fía Sól gefst aldrei upp hvetur til umræðu [...] og vekur athygli á starfi Umboðsmanns barna.“

Um Sjúklega súr saga segir: „Bókinni er ætlað að vekja áhuga ungs fólks á sögunni og sýna fram á að í gamla daga hafi lífið hvorki verið betra né einfaldara. [...] Hér er á ferðinni metnaðarfullt verk þar sem Íslandssaga er sett fram á lipran, fyndinn og myndrænan máta.“

Sköpunarþrá og nánd

Í flokki fagurbókmennta eru tilnefndar Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur; Kláði eftir Fríðu Ísberg og Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.

Dómnefnd skipuðu Guðrún Lára Pétursdóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.

Í umsögn um skáldsöguna Ungfrú Ísland segir að bókin sé: „saga um vináttu og sköpunarþrá ungs fólks sem sker sig úr í veröld þröngsýni og íhaldssemi. Stíllinn er fullur af lúmskum húmor og háði en jafnframt þungum undirtóni kúgunar og karlrembu. [...] Ungfrú Ísland kallast á við ýmis verk bókmenntasögunnar sem fjallað hafa um rithöfundadrauma ungra manna og dregur þannig á athyglisverðan hátt fram þann þrönga stakk sem konum hefur verið sniðinn, bæði innan skáldskaparins og utan.“

Um smásagnasafnið Kláði segir: „Hið knappa form smásögunnar er hér nýtt til hins ítrasta og með fáum dráttum tekst höfundi að draga upp ljóslifandi persónur og kunnuglegar kringumstæður. Frásögnin er uppfull af leiftrandi húmor og óvæntum sjónarhornum, stíllinn er léttur og áreynslulaus. Þótt sögurnar standi fyllilega undir sér sem sjálfstæð verk magnast kraftur þeirra þegar þær eru lesnar í samhengi hver við aðra.“

Um smásagnasafnið Ástin, Texas segir að bókin geymi fimm smásögur sem „láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Umfjöllunarefnið er nánd og þá einkum skorturinn á henni. [...] Ástarsamböndin í sögunum eru af fjölbreyttum toga en eiga það sameiginlegt að vera á einhvern hátt löskuð. [...] Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn.“

Þögguð saga kvenna

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis eru tilnefndar Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur; Krullað og klippt: Aldarsaga háriðna á Íslandi eftir Báru Baldursdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur og Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð eftir Guðrúnu Nordal.

Dómnefnd skipuðu Dalrún J. Eygerðardóttir, Sóley Björk Guðmundsdóttir og Unnur Jökulsdóttir.

Í umsögn um Þjáningafrelsið segir: „Bókin skilur eftir sig spurningar, hugmyndir og vangaveltur um samfélagið og öruggt er að bókin verður góð heimild í framtíðinni til að skoða stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar.“

Um Krullað og klippt segir: „Bókin er merkt framlag til iðnsögu Íslands en jafnframt einstakt tillegg til rannsókna á sviði kvenna- og kynjasögu á Íslandi. [...] Höfundarnir rýna í sagnahefð lokkanna og miðla hársögu Íslands í liprum texta og mögnuðum myndum bókar.“

Um Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð segir að bókin segi frá ferðalagi höfundar um menningararf og sögu þjóðarinnar. Guðrún noti „fræði sín, þekkingu og visku, en líka sögur af formæðrum og -feðrum til að sýna hver við erum og hvaðan við komum á tímum hraðra og stórstíga breytinga. [... Höfundur] varpar fram kvenlægri sýn á söguna og menningararfinn, grefur upp hina huldu og þögguðu sögu kvenna.“

Allar nánari upplýsingar um verðlaunin og rökstuðninginn í heild má finna á vefnum fjoruverdlaunin.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert