Stefnt að því að ljúka viðgerð 20. desember

Fjordvik í Hafnarfjarðarhöfn.
Fjordvik í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Vonast er til þess að viðgerð á flutningaskipinu Fjordvik, sem strandaði í Helguvík við Reykjanesbæ í byrjun nóvember, ljúki 20. desember að sögn Ásbjörns Helga Árnasonar skipatæknifræðings sem hefur umsjón með verkinu í flotkvínni í Hafnarfirði.

Fjordvik var dregið til hafnar í Keflavík um viku eftir að það strandaði við brimgarð í Helguvík. Þaðan var það síðan dregið til Hafnarfjarðar 13. nóvember. Gríðarlega miklar skemmdir voru á skipinu að sögn Ásbjörns. Öll hliðin á því hafi þannig verið mjög illa farin.

Til stendur að til landsins komi erlent dráttarskip til þess að flytja Fjordvik úr landi þegar viðgerð á því lýkur en hún er til bráðabirgða til þess að tryggja að skipið geti flotið af sjálfsdáðum. Hvenær það verður fer eftir því hvernig viðgerðin mun ganga.

Strandið er til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa en að sögn Jóns Arilíusar Ingólfssonar, rannsóknarstjóra siglingasviðs, liggur ekki fyrir hvenær rannsókninni, sem fer fram í umboði fánaríkis skipsins sem er Bahamaeyjar, lýkur. 

Hvað sjópróf varðar eru þau ekki á könnu rannsóknarnefndarinnar en þau hafa ekki farið fram. Hvort til þess kemur er háð ákvörðun útgerðar skipins eða tryggingarfélags þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert