„Ég geri mér grein fyrir því að ég lét þetta viðgangast. En á sama tíma geri ég mér fulla grein fyrir því að það er ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukknir menn tala. Ég hefði átt að fara fyrr en ég gerði. Það eru alveg ótrúlega mörg „Ég hefði“.
Þetta segir Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og ein sexmenninganna úr hópi þingmanna Miðflokks og Flokks fólksins sem fóru óviðeigandi orðum um samstarfsfólk sitt og aðra á barnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember síðastliðinn, en hluti samtalsins náðist á upptöku og hefur verið til umfjöllunar undanfarna viku.
Þátttaka Önnu Kolbrúnar í þessari örlagaríku kvöldstund hennar, samflokksmanna hennar Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og tveggja þingmanna Flokks fólksins, þeirra Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, hófst að hennar sögn með því að hún fékk símtal þar sem henni var boðið að slást í hópinn á Klaustri.
„Það stóð aldrei til að ég tæki þátt í þeirri umræðu sem var í gangi þetta kvöld á Alþingi, sem var umræða um fjárlögin. Við í þingflokki Miðflokksins skiptum með okkur málefnum og verkum rétt eins og fólk í öðrum þingflokkum. Þegar ég kom var mér boðinn stór bjór og ég drakk einn lítinn bjór til viðbótar. Ég drakk þessa drykki á löngum tíma og ég var ekki drukkin, eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Ég lagði það sem sagt ekkert sérstaklega á minnið og ég var fyrst af þingmönnum Miðflokksins til að yfirgefa staðinn. Þegar ég kom út sagði ég við Ólaf Ísleifsson: Þetta var of mikið.“
Hvað áttirðu við með því? „Mér fannst of mikill ákafi í mönnum. Ég upplifði þetta þannig að ég hafi ítrekað reynt að skipta um umræðuefni, án árangurs.“
Þegar málið komst í hámæli sagðist Anna Kolbrún ætla að hugsa sinn gang og er nú komin að þeirri niðurstöðu að hún muni ekki segja af sér. Hún segir það ekki hafa verið sitt hlutverk að þagga niður í mönnum en hún hafi reynt að beina samtalinu á aðrar brautir.
Hún segist aldrei hafa grátið jafnmikið á ævinni og undanfarna daga og að hún hafi m.a. brostið í grát á fundi formanna þingflokkanna í gær. „En ég er hætt að vera hrædd við að gráta. Það er alltaf ætlast til þess að fólk fari allt á hnefanum og sýni hvorki tilfinningar né veikleikamerki. Af hverju má ekki sýna tilfinningar?“
Anna Kolbrún er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu á morgun.