Kynningarfundur um 50 metra hátt fjarskiptamastur

Yfirbragð mannvirkja. Horft til vesturs.
Yfirbragð mannvirkja. Horft til vesturs. Teikning/Arkís

Reykjavík og Sýn hafa látið vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir um 1,3 hektara svæði á toppi Úlfarsfells þar sem fyrirhugað er að reisa 50 m hátt fjarskiptamastur fyrir loftnet og tækniskýli með útsýnispalli. Málið verður kynnt fyrir íbúum á fundi sem fer fram 6. desember. 

Á fundinum verða kynntar tæknilegar forsendur verkefnisins og skipulagstillaga sem er í kynningarferli.

Umrædd framkvæmd tryggir fullnægjandi útvarps- og fjarskiptaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og til að lágmarka sjónræn áhrif mannvirkja er lagt til að unnið verði með náttúruleg byggingarefni á þann hátt að mannvirkin falli sem best inn í landslagið og umhverfið, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg

Fram hefur komið í Morgunblaðinu, að íbúar í Úlfarsárdal séu mótfallnir því að Sýn fái að reisa mastrið á þessum stað. 

„Fyrirheit eru um útsýnispall og mastur úr náttúrulegu byggingarefni, en það er ekkert náttúrulegt við 50 metra hátt stálmastur hlaðið tækjabúnaði og mun það rýra útivistargildi svæðisins,“ sagði í ályktun Íbúasamtaka Úlfarsárdals þar sem tillögunni er harðlega mótmælt.  

Fundurinn verður haldinn í leikskólabyggingu Dalskóla, Úlfarsbraut í Reykjavík, fimmtudaginn 6. desember, kl. 20.

Ljósmynd af deiliskipulagssvæði. Horft til Reykjavíkur.
Ljósmynd af deiliskipulagssvæði. Horft til Reykjavíkur.
Úlfarsfell.
Úlfarsfell. Ljósmynd/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert