„Tefja umferð og skattleggja tafir“

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi mjög fjárhagsáætlun …
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi mjög fjárhagsáætlun meirihlutans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svo á að setja tafagjöld á umferð. Það á ekki bara að tefja umferðina, en líka setja skatta á þá sem eru að tefjast. Ég get ekki skilið það öðruvísi. Og þá á að nota þau gjöld til þess að fara í nýjar fjárfestingar sem ekki eru fjármagnaðar í þessari fjármagnsáætlun. Það er ekki til peningur fyrir þeim,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í síðari umræðum borgarstjórnar um fjárhagsáætlun borgarinnar.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lýstu því nýverði að þau vilja leyfi til þess að innheimta mengunar- og tafargjöld til þess að afla fjár sem mun vera nýtt til uppbyggingar samgönguinnviða svo sem borgarlínu, að því er kom fram í umfjöllun RÚV.

„Gjaldskrárnar hækka áfram og við sjáum það að Orkuveitan sem áður var með hagstæðustu gjöldin er nú með hærri gjöld en aðrir,“ sagði hann í ræðu sinni.

Bætti Eyþór því við að ekki væri lagastoð fyrir innheimtu þeirra gjalda sem gerðar hafa verið tillögur um. „Síðan hefur verið boðað hér í borgarstjórn og á blaðamannafundum að koma með nýja skatta. Skatta sem ekki er heimild fyrir og biðja ríkið um að fá að skattleggja íbúana. Skatta eins og innviðagjöld sem eiga að leggjast á nýtt húsnæði og þá verður enn þá dýrara að byggja fyrir ungt fólk eða fyrstu kaupendur,“ sagði hann.

Segjast lækka fasteignagjöld

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur leggur til í breytingartillögu við eigin tillögu að fjárhagsáætlun til fimm ára, að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir árið 2021 úr 1,65% í 1,63% og á ný 2022 í 1,60%. Í upphaflegri tillögu meirihlutans að áætlun til fimm ára var ekki gert ráð fyrir breytingunum, en er slíkar breytingar að finna í stefnuyfirlýsingu meirihlutans.

Eyþór sagði ljóst að önnur sveitarfélög á landinu væru að koma til móts við fyrirtæki og íbúa með því að lækka fasteignagjöld í kjölfar hækkunar fasteignamats og í ljósi þess að stofn fasteignaskatta hafi hækkað og skattprósentan standi í stað fyrir árið 2019 „þá þýðir það 15% hækkun,“ staðhæfði oddvitinn.

Stjórnsýslan kostar meira

Fram kom í kynningu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra að áætlaður kostnaður við rekstur stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er 3,85 milljarðar króna og er 688 miljónum hærri en rekstrarniðurstaða ársins 2017 sem var 3,16 milljarðar króna. Hækkunin nemur því 21,8%.

Þá eru 6.928 stöðugildi í A-hluta Reykjavíkurborgar á móti 1.916 hjá Kópavogsbæ og 1.412 hjá Hafnarfjarðarbæ. Gagnrýndi Eyþór að fleiri stöðugildi væru í Reykjavík borið saman við önnur sveitarfélög.

Dagur tók hins vegar fram að 55 stöðugildi væru á hverja þúsund íbúa í Reykjavík, 53,3 í Kópavogi og 48 í Hafnarfirði. Sagði hann þennan litla mun skýrast meðal annars vegna stærra álags Reykjavíkurborgar við að sinna félagsmálum en annarra sveitarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert