„Tefja umferð og skattleggja tafir“

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi mjög fjárhagsáætlun …
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi mjög fjárhagsáætlun meirihlutans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svo á að setja tafa­gjöld á um­ferð. Það á ekki bara að tefja um­ferðina, en líka setja skatta á þá sem eru að tefjast. Ég get ekki skilið það öðru­vísi. Og þá á að nota þau gjöld til þess að fara í nýj­ar fjár­fest­ing­ar sem ekki eru fjár­magnaðar í þess­ari fjár­magnsáætl­un. Það er ekki til pen­ing­ur fyr­ir þeim,“ sagði Eyþór Arn­alds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins, í síðari umræðum borg­ar­stjórn­ar um fjár­hags­áætl­un borg­ar­inn­ar.

Sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu lýstu því ný­verði að þau vilja leyfi til þess að inn­heimta meng­un­ar- og tafar­gjöld til þess að afla fjár sem mun vera nýtt til upp­bygg­ing­ar sam­göngu­innviða svo sem borg­ar­línu, að því er kom fram í um­fjöll­un RÚV.

„Gjald­skrárn­ar hækka áfram og við sjá­um það að Orku­veit­an sem áður var með hag­stæðustu gjöld­in er nú með hærri gjöld en aðrir,“ sagði hann í ræðu sinni.

Bætti Eyþór því við að ekki væri laga­stoð fyr­ir inn­heimtu þeirra gjalda sem gerðar hafa verið til­lög­ur um. „Síðan hef­ur verið boðað hér í borg­ar­stjórn og á blaðamanna­fund­um að koma með nýja skatta. Skatta sem ekki er heim­ild fyr­ir og biðja ríkið um að fá að skatt­leggja íbú­ana. Skatta eins og innviðagjöld sem eiga að leggj­ast á nýtt hús­næði og þá verður enn þá dýr­ara að byggja fyr­ir ungt fólk eða fyrstu kaup­end­ur,“ sagði hann.

Segj­ast lækka fast­eigna­gjöld

Meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur legg­ur til í breyt­ing­ar­til­lögu við eig­in til­lögu að fjár­hags­áætl­un til fimm ára, að fast­eigna­skatt­ar á at­vinnu­hús­næði verði lækkaðir árið 2021 úr 1,65% í 1,63% og á ný 2022 í 1,60%. Í upp­haf­legri til­lögu meiri­hlut­ans að áætl­un til fimm ára var ekki gert ráð fyr­ir breyt­ing­un­um, en er slík­ar breyt­ing­ar að finna í stefnu­yf­ir­lýs­ingu meiri­hlut­ans.

Eyþór sagði ljóst að önn­ur sveit­ar­fé­lög á land­inu væru að koma til móts við fyr­ir­tæki og íbúa með því að lækka fast­eigna­gjöld í kjöl­far hækk­un­ar fast­eigna­mats og í ljósi þess að stofn fast­eigna­skatta hafi hækkað og skatt­pró­sent­an standi í stað fyr­ir árið 2019 „þá þýðir það 15% hækk­un,“ staðhæfði odd­vit­inn.

Stjórn­sýsl­an kost­ar meira

Fram kom í kynn­ingu Dags B. Eggerts­son­ar borg­ar­stjóra að áætlaður kostnaður við rekst­ur stjórn­sýslu Reykja­vík­ur­borg­ar er 3,85 millj­arðar króna og er 688 milj­ón­um hærri en rekstr­arniðurstaða árs­ins 2017 sem var 3,16 millj­arðar króna. Hækk­un­in nem­ur því 21,8%.

Þá eru 6.928 stöðugildi í A-hluta Reykja­vík­ur­borg­ar á móti 1.916 hjá Kópa­vogs­bæ og 1.412 hjá Hafn­ar­fjarðarbæ. Gagn­rýndi Eyþór að fleiri stöðugildi væru í Reykja­vík borið sam­an við önn­ur sveit­ar­fé­lög.

Dag­ur tók hins veg­ar fram að 55 stöðugildi væru á hverja þúsund íbúa í Reykja­vík, 53,3 í Kópa­vogi og 48 í Hafnar­f­irði. Sagði hann þenn­an litla mun skýr­ast meðal ann­ars vegna stærra álags Reykja­vík­ur­borg­ar við að sinna fé­lags­mál­um en annarra sveit­ar­fé­laga.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka