Þingmenn efast um orkupakkann

Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Bjarni …
Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson. Samsett mynd

Sex þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins að minnsta kosti hafa op­in­ber­lega viðrað mikl­ar efa­semd­ir á und­an­förn­um mánuðum um það að rétt sé að Alþingi samþykki þriðja orkupakka Evr­ópu­sam­bands­ins í gegn­um EES-samn­ing­inn, eða um þriðjung­ur þing­flokks sjálf­stæðismanna. Til stend­ur að leggja fram þing­mál um samþykkt pakk­ans í fe­brú­ar.

Þing­menn­irn­ir eru Páll Magnús­son, Jón Gunn­ars­son, Brynj­ar Ní­els­son, Njáll Trausti Friðberts­son og Óli Björn Kára­son en að auki hef­ur Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, fjallað um málið með gagn­rýn­um hætti og sagt að orku­mál Íslend­inga ættu ekki að vera mála­flokk­ur sem heyrði und­ir EES-samn­ing­inn.

Lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins í mars ályktaði gegn því að frek­ara vald yfir ís­lensk­um orku­mál­um væri fram­selt úr landi og skoðana­könn­un sem gerð var fyr­ir Heims­sýn og birt í vor sýndi yfir 91,6% stuðnings­manna flokks­ins á sömu skoðun en 2,8% ósam­mála.

Fjöl­menn­ur fund­ur var hald­inn í Val­höll, höfuðstöðvum Sjálf­stæðis­flokks­ins, í sept­em­ber af nokkr­um hverfa­fé­lög­um flokks­ins í Reykja­vík þar sem samþykkt var ein­róma álykt­un með áskor­un á flokks­for­yst­una um að hafna inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans.

Hins veg­ar hafa bæði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar, og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra, sem eru einnig þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, talað fyr­ir því að þriðji orkupakk­inn verði samþykkt­ur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Þór­dís hef­ur þó ekki úti­lokað að til þess gæti komið að Ísland beitti neit­un­ar­valdi sínu sam­kvæmt EES-samn­ingn­um gegn inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans (málið heyr­ir und­ir ráðuneyti þeirra Guðlaugs Þórs) en sagt að það gæti haft af­leiðing­ar.

Styrm­ir Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri Morg­un­blaðsins, sagði í út­varpsþætt­in­um Þing­vell­ir á út­varps­stöðinni K100 á sunnu­dag­inn að hann teldi að upp­reisn yrði í Sjálf­stæðis­flokkn­um ef stjórn­völd reyndu að keyra þriðja orkupakk­ann í gegn­um þingið.

Spurði Styrm­ir Pál Magnús­son, sem sá um stjórn þátt­ar­ins, hvort hann ætlaði að samþykkja þriðja orkupakk­ann þegar það kæmi inn á Alþingi og svaraði Páll því til að ef hann ætti að greiða at­kvæði um málið núna myndi hann hafna samþykkt orkupakk­ans.

Jón Gunn­ars­son kallaði eft­ir því í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu í lok nóv­em­ber að farið yrði fram á und­anþágu fyr­ir Ísland frá orku­lög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins enda ætti hún ekki við aðstæður hér á landi. Eft­ir á að hyggja hefði ekki átt að samþykkja fyrri orkupakka.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Brynj­ar Ní­els­son hafði áður í út­varpsþætt­in­um Þing­völl­um 11. nóv­em­ber sagt að hann vildi í lengstu lög kom­ast hjá því að inn­leiða þriðja orkupakk­ann. Vand­inn við EES-samn­ing­inn væri að alltaf væri gengið lengra og lengra og kraf­ist sí­fellt meira framsals valds.

„Þetta er vand­inn við þenn­an samn­ing. Það sem ger­ist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á vald­inu verður alltaf meira og meira. Þá er spurn­ing­in: Eig­um við alltaf að teygja okk­ur lengra í þessa átt eða eig­um við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitt­hvað of mikið“?“ sagði Brynj­ar enn­frem­ur.

Njáll Trausti sagði til dæm­is við norska fjöl­miðla fyrr á ár­inu að mikl­ar áhyggj­ur væru inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins vegna þriðja orkupakk­ans. Fagnaði hann enn­frem­ur skoðana­könn­un­inni í vor. Málið sner­ist um að þjóðin færi sjálf með stjórn orku­mála sinna.

Óli Björn ræddi málið að sama skapi við norska fjöl­miðla á ár­inu og sagði mikl­ar áhyggj­ur af mál­inu á Íslandi enda ógnaði það sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Miðað við þá vitn­eskju sem hann hefði um málið myndi hann ekki greiða at­kvæði með samþykkt þess.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrm­ir Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri Morg­un­blaðsins. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

„Mikl­ar áhyggj­ur eru af reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins um orku­mál á Íslandi. Ekki aðeins í okk­ar flokki held­ur í næst­um öll­um stjórn­mála­flokk­un­um fyr­ir utan þá tvo flokka sem styðja inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið, sósí­al­demó­krat­ana og Viðreisn.“

Bjarni Bene­dikts­son varpaði fram þeirri spurn­ingu á Alþingi í byrj­un árs­ins varðandi þriðja orkupakk­ann hvað Íslend­ing­ar hefðu með það að gera að ræða orku­mál sín við Evr­ópu­sam­bandið úti í Brus­sel. Mál sem tengd­ust á eng­an hátt orku­markaði lands­ins.

„Mér finnst vera svo mikið grund­vall­ar­atriði hér að við skil­grein­um hvað séu innri­markaðsmál sem við vilj­um sinna sér­stak­lega und­ir EES-samn­ingn­um og hvað eru mál sem tengj­ast ekki beint innri markaðinum. Og hérna erum við með krist­al­tært dæmi um það. Þetta er raf­orku­mál Íslands. Þetta er ekki innri­markaðsmál.“

Þá hafa efa­semdaradd­ir heyrst víðar. Bæði Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Miðflokk­ur­inn hafa ályktað gegn því að þriðji orkupakki Evr­ópu­sam­bands­ins verði inn­leidd­ur hér á landi og slík­ar radd­ir hafa einnig heyrst inn­an Flokks fólks­ins og Vinstri-grænna en síðast­nefndi flokk­ur­inn lagðist gegn fyrsta og öðrum orkupakka sam­bands­ins á sín­um tíma.

Skoðana­könn­un­in sem gerð var síðasta vor sýndi mik­inn meiri­hluta stuðnings­manna allra stjórn­mála­flokka sem sæti eiga á Alþingi and­víga því að fram­selja vald yfir ís­lensk­um orku­mál­um til evr­ópskra stofn­ana. Mest reynd­ist andstaðan meðal kjós­enda Sjálf­stæðis­flokks­ins, Miðflokks­ins, Fram­sókn­ar­flokks­ins og Vinstri-grænna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka