Baldur Arnarson
Byggja á upp Reykjavíkurflugvöll á næstu árum. Framkvæmdin er liður í áformum um að stórefla varaflugvelli fyrir millilandaflug í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.
Njáll Trausti Friðbertsson, formaður starfshóps um framtíð innanlandsflugs, staðfestir þetta en hópurinn hefur skilað ráðherra tillögum.
Njáll Trausti segir uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar vera flugöryggismál. Kerfið megi ekki veikjast meira en orðið er. Með tillögunum séu færð rök fyrir því að hafa áfram flugvöll í Vatnsmýri.
„Ég held að það sé orðið almennt samþykki fyrir því að menn sjái ekki fyrir sér að Reykjavíkurvöllur sé að fara næstu 15-20 árin.“
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Njáll Trausti segir innviði engan veginn hafa haldið í við margföldun flugfarþega. Hann rifjar upp að 2. apríl sl. hafi flugmenn farþegaþotu verið 8 mínútur frá því að lýsa yfir neyðarástandi vegna eldsneytisskorts. Hafði vélinni verið beint til Egilsstaða vegna snjókomu á Keflavíkurflugvelli. Varaflugvellir hafi aðeins rúmað fáeinar þotur.
Spurður hvaða áhrif tillögurnar hafi á framtíð Reykjavíkurflugvallar segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, stöðu flugvallarins „áfram í því limbói sem hún hefur verið. Það eru allir sammála um að Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er þangað til annar, eða jafn góður eða betri flugvöllur í nágrenni Reykjavíkur finnst. Það er niðurstaðan úr síðustu skýrslum sem allir aðilar hafa skrifað undir.“