Ísland er áfangastaður ársins 2018 samkvæmt lesendum bandaríska ferðatímaritsins Travel+Leisure, en Ísland hlaut alls 14,5% atkvæða í rafrænni könnun tímaritsins.
Á eftir Íslandi kemur Singapore með 10,5%, og telur blaðamaður Travel+Leisure að kvikmyndin Crazy Rich Asians, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda síðan hún kom út fyrr á árinu, spili þar inn í. Japan hafnar í þriðja sæti meðal lesenda, en er áfangastaður ársins samkvæmt ritstjórn Travel+Leisure.
Í umfjöllun Travel+Leisure um Ísland segir að þar séu ferðamenn fleiri en íbúar landsins og að flestir ættu að hafa orðið varir við vindsældir landsins sem ferðamannastaðar.
Hóteliðnaðurinn er sagður blómstra á Íslandi, auk þess sem flugfélög og skemmtiferðaskip séu að fjölga ferðum til landsins. Náttúran er sögð það sem dregur ferðamenn að: Vatnajökull, Silfra og svartar strendur, svo eitthvað sé nefnt.
Þrátt fyrir að Ísland sé ekki lengur „næsti stóri áfangastaður“ ferðamanna stendur það sannarlega undir væntingum, samkvæmt Travel+Leisure.