Samþykkt var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun að kalla Bjarna Benediktsson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Guðlaug Þór Þórðarson og Gunnar Braga Sveinsson fyrir nefndina vegna ummæla um meinta sendiherrastöðu fyrir Gunnar Braga.
Greint var frá málinu á vef Rúv en Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, bar tillöguna upp. Jón Þór Ólafsson, annar varaformaður, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Jón Þór býst við því að fjórmenningarnir verði boðaðir á nefndarfund á miðvikudag eftir viku en það á þó eftir að staðfesta það.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra greindi frá því á Facebook í dag að hann hafi ekki í hyggju að gera Gunnar Braga, þingmann Miðflokksins, að sendiherra. Að sögn Guðlaugs áttu hann og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra óformlegan fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu.
„Sem fyrrverandi utanríkisráðherra kann Gunnar Bragi að hafa haft væntingar um slíka skipun en það er í það minnsta ekki á grundvelli neinna loforða, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins, og raunar Gunnar Bragi sjálfur, hefur staðfest. Frásagnir í alræmdu samsæti á Klaustri um einhvers konar samkomulag í þessa átt voru mér enda algjörlega framandi, eins og ég hef þegar tjáð mig um,“ kom meðal annars fram í færslu Guðlaugs.