Myndbandið rakinn atvinnurógur

Plastpoki eða fjölnota innkaupapoki? Sorpa hefur gefið á milli 30-40.000 …
Plastpoki eða fjölnota innkaupapoki? Sorpa hefur gefið á milli 30-40.000 eintök af fjölnota innkaupapokum og hvetur fólk til að nota ekki meira af plastpokum en þarf. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Þetta myndband er rakinn atvinnurógur og ekkert annað,“ segir Björn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu um myndband sem Íslenska gámafélagið birti á síðu sinni undir heitinu „Bönn­um plastið!“ Þar eru tal­in upp nokk­ur rök fyr­ir skaðsem­inni sem fylgi einnota plast­umbúðum og Sorpa gagnrýnd fyrir að segja í um­sögn sinni við til­lög­um sam­ráðsvett­vangs um fyr­ir­hugað plast­pokabann að Sorpa sjái „ekki rök­in fyr­ir banni við notk­un einnota halda­poka úr plasti“.

„Það er alveg undarlegt að mönnum skuli detta í hug að upphefja sjálfa sig með því að mála einhverja aðra svörtum litum,“ segir Björn. „Við höfum enga hagmuni af því hvort plastpokinn sé bannaður eða ekki.“  

Ábendingar Sorpu um plastáætlunina, sem ekki snúist bara um plastpokana, sé að lagt er til plastpokabann án þess að gerð sé nein tilraun til útreikninga á því hvort að þetta sé samfélagslega, umhverfislega eða efnahagslega ásættanlegt. Hjá Sorpu vilji menn að slíkar ákvarðanir byggi á málefnalegum forsendum, en „ekki bara því að Evrópusambandið segi það eða af því að einhverjum detti það í hug.“

Umhverfisáhrifin mest við framleiðslu

Hann bendir á að Sorpa hafi árið 2011 byrjað að gefa margnota innkaupapoka. „Ég held að við séum búin að gefa á milli 30-40.000 eintök. Þannig að við hvetjum íbúa og erum búin að gera í mörg ár að vera ekki að nota meira af plastpokum heldur en þarf.“

Framsetningin í myndbandinu sé því alveg rakalaus og dæmi sig sjálf.

Árið 2017 fóru um 27 kíló af óflokkuðu plasti frá …
Árið 2017 fóru um 27 kíló af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu í sorptunnuna. Mynd úr safni. mbl.is/Sorpa

Spurður út í þá fullyrðingu Gámafélagsins að erlendu rannsóknirnar sem Sorpa vísar til í umsögn sinni til samráðsvettvangsins eigi við erlendis en ekki hér á landi, segir Björn allar þrjár rannsóknirnar sem vísað var til segja umhverfisáhrifin vera langmest við framleiðslu. Mun minna máli skipti hver endanotkunin sé. „Hafi menn athugasemdir við rannsóknirnar verða þeir að beina þeim gegn höfundum þeirra. Það þýðir ekki að ráðast á Sorpu,“ segir hann og kveður skýrslurnar unnar af virtum háskóla í Danmörku fyrir dönsk umhverfisyfirvöld.

Ekki nema 1% af fljúgandi rusli

Í myndbandinu er fullyrt að hér endi plastpokarnir annaðhvort í urðun eða úti í náttúrunni. Björn segir rétt að þeir pokar sem geyma almennt rusl endi í urðun. Þeir sem settir séu í endurvinnslufarveginn fari hins vegar í endurvinnslu. „Það er þess vegna sérstakt að halda því fram að þeir endi bara á tveimur stöðum úti í náttúrunni eða á urðunarstað,“ segir hann og bendir á að samkvæmt kanadískri könnun á magni plastpoka af því rusli sem fjúki um í náttúrunni hafi þeir ekki verið nema 1%. Plastpokinn kunni að vera fyrirferðamikill í sjón en mun meira sé þó af margvíslegu minna rusli s.s. sælgætisbréfum, plasti utan af grænmeti og öðru slíku.

Björn er engu að síður sammála því að plastnotkun sé eitthvað sem taka verði á og nefnir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks í gærkvöldi í því sambandi. Þar hafi plastburðapokarnir til að mynda ekki verið stærsta vandamálið sem hafnfirska fjölskyldan í þættinum var að fást við til að minnka plastnotkun sína.

„Þetta er orðið ansi nærri okkur, en er þá hægt að ná mestum árangri með því að banna plastpoka? Ég er ekki sannfærður,“ segir hann og kveður menn þá verða að sýna fram á það með einhverju móti. „Í plastáætlun ríkisins er fullt af ágætishugmyndum, t.d. að banna einnota drykkjarmál, einnota sogrör og eyrnapinna úr plasti sem skilar alveg örugglega árangri.“ Þá hafi Sorpa einnig gagnrýnt að í áætluninni sé ekkert minnst á samsettar umbúðir sem séu óendurvinnanlegar. „Það er alveg ástæða til að skoða það,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert