„Það sem vekur sérstaka athygli mína og veitir mér von eftir því sem maður talar við fleiri er að þetta eru alltaf sömu meginatriðin sem við erum að eiga við, jafnvel þó þetta séu mjög ólík heimssvæði,“ segir Pétur Halldórsson formaður Ungra umhverfissinna.
Hann er staddur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú er haldinn í Katowice í Póllandi og er það í fyrsta skipti sem samtökin eiga þar fulltrúa. Yfir 20.000 manns eru í Katowice í tengslum við ráðstefnuna og segir Pétur umfangið mikið. „Þetta er svolítið yfirþyrmandi. Það eru mörg ríki ýmist sér eða sameiginlega með skála, eins og norrænu ríkin gera með Norræna skálanum og þar er fullt af hliðarviðburðum.“
Ungir umhverfissinnar stóðu einmitt fyrir einum slíkum viðburði í samstarfi við norrænu ráðherranefndina, en þau skipulögðu þá pallborsumræður sem fram fóru í Norræna skálanum. Ritari samtakanna, Sigurður Thorlacius, mun svo flytja tölu á Arctic Day ráðstefnunni sem haldin verður í Katowice á laugardag.
Pétur segir engu að síður gott hljóð í fólki. „Þetta eru náttúrulega mjög þung málefni og það er ástæða fyrir að fólk er hérna, þannig að ég get ekki sagt að það sé ánægt með ástandið.“
Ungir umhverfissinnar tilheyra tiltölulega nýstofnuðu alþjóðlegu tengslaneti ungmenna um norðurslóðir, Arctic Youth Network (AYN). „Við hittum við hóp frá Alaska á Arctic Circle í fyrra sem heitir Arctic Youth Ambassadors,“ segir Pétur um tildrög heimskautaráðsins og kveður þau þá hafa vitað lítið um hvað væri að gerast í Alaska. „Út frá því ákváðum við að stofna tengslanetið og það er það sem við vorum að kynna á þessari málstofu hjá ráðherranefndinni og það er það sem er okkar boðskapur hér.“
Um 90-100 manns frá 27 löndum eru nú í AYN tengslanetinu. Mikill fjöldi ungmenna þá nú staddur í Katowice og segir Pétur takmarkið að ná að tala við sem flest þeirra. Tilgangur tengslanetsins sé enda að vera vettvangur fyrir ungt fólk af ólíkum land- og menningarsvæðum til að beina athyglinni að loftslagsmálum, lífbreytileika (e. biodiversity), menningalegu jafnrétti og hvernig þessir þættir tengjast innbyrðis.
„Það eru allir smátt og smátt að gera sér grein fyrir því að við höfum ekki tíma til að vera í tvær vikur að leysa eitt vandamál og tvær vikur að leysa það næsta af því að vandamálin eru alltof mörg,“ segir Pétur og kveður þau verða vör við mikinn áhuga. Nauðsynlegt sé líka að allir séu samstilltir, jafnvel þó að þeir séu að einbeita sér að mismunandi þáttum.
Pétur nefnir þann mikla fjölda málstofa sem er í boði í tengslum við loftslagsrástefnuna máli sínu til stuðnings. Þar megi m.a. finna málsstofur um tengsl loftslagsbreytinga við kynjajafnrétti, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á fólksflutninga, sem og ójöfn áhrif þeirra á menningahópa.
„Ég var á málsstofu þar sem var verið að fjalla um bein áhrif loftslagsbreytinga á bæi sem er búið að ákveða að þurfi að flytja,“ segir Pétur og nefnir að þar hafi komið fram að í Alaska væri hitastigið búið að hækka um 3°.
„Hækki hitastig jarðar að meðaltali um 2° þá þýðir það um 4-5° hlýnun á Norðurslóðum. Þessi samfélög sem búa þarna á jaðri veraldar hafa ekki verið að taka sama þátt í þessum útblæstri sem bitnar svo á þeim.“ Þetta sé nokkuð sem tengist menningarlega jafnréttinu sem tengslaráðið beini athygli sinni að. „Við erum með hagkvæm verkfæri til að ná þessu í fókus,“ segir hann og kveður þau hafa fengið góðar viðtökur.
15 ára sænsk stúlka, Greta Thunberg, sem í allt haust hefur staðið fyrir skólaverkföllum til að vekja athygli á loftslagsmálum, flutti tölu á loftslagsráðstefnunni. Sakaði hún þar leiðtoga heims um að haga sér eins og óábyrgir krakkar.
„Í 25 ár hefur fjöldi manna komið á loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna og beðið leiðtoga heims að stöðva losunina. Það hefur greinilega ekki virkað af því að útblásturinn heldur áfram að aukast. Þess vegna ætla ég ekki að biðja leiðtoga heims um að láta sig framtíðina varða. Þess í stað ætla ég að láta þá vita að breytingarnar verða hvort sem þeim líkar það eða ekki,“ sagði Greta í ræðu sinni.
Pétur segir þetta gott dæmi um það að ungt fólk láti sig loftslagsmálin varða. „Það er fólkið sem situr uppi með afleiðingarnar þegar tíminn líður. Unga fólkið er líka í lykilstöðu,“ sagði hann og kvað það lýsa sér vel í tengslanetinu. „Þegar við erum sammála um að þessi lykilatriði [loftslagsmálin, lífbreytileiki og menningarlegt jafnrétti] séu samtengt, líkt og öll sjálfbær þróun þá myndast svo mikið traust að umræðan okkar á milli getur, óháð landamærum, verið miklu frjálsari og dýpri en fulltrúa ríkja sem eru að gæta sinna hagsmuna.“
Unga fólkið snúi þessu við með því að vera ekki fulltrúar einhvers ákveðins ríkis eins og Íslands, Grænlands eða Rússlands. „Við erum í sama liði og þetta er eitthvað sem er nauðsynlegt til að geta leyst þennan vanda – að við sem það getum tengjum á jafningjagrundvelli um allan heiminn.“
Það hafi líka vakið sér bæði athygli og von eftir því sem hann tali við fleiri að meginatriðin séu allltaf þau sömu óháð heimssvæðum. „Það er þess vegna sem við hönnuðum þetta tengslanet með þessari áherslu að loftslagsmál, lífbreytileiki og menningalegt jafnrétti sem grundvallaratriði. Auðvitað skipta öll 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna jafnmiklu máli, en þetta finnst okkur veita okkur fókusinn sem sameinar okkur og setur í sama bát.“