Bjarni V. Tryggvason, fyrsti íslenski geimfarinn, tekur að sér kennslu á námskeiði sem haldið er í Háskólanum í Reykjavík (HR) í þessum mánuði. Er um að ræða þriggja vikna námskeið undir yfirskriftinni Space Systems Design.
Námskeið sem þetta eru haldin að loknum prófum á hverri önn og er námsefnið sett í hagnýtt samhengi og er oft fenginn gestakennari í kennsluna, segir á vef HR.
Bjarni lauk þjálfun hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, og hefur hann meðal annars komið að þróun hugbúnaðar sem notaður hefur verið í geimstöðvum og geimskutlum. Hann starfar við flugvélaprófanir og flugþjálfun auk þess sem hann sinnir rannsóknum og kennslu í verkfræði á sviði loftaflsfræði, straumfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir. Þá er hann höfundur rúmlega 50 vísindagreina, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.