Íbúar í nágrenni húss sem hýsa átti heimili fyrir ungmenni í vanda kröfðust þess að sett yrði lögbann á starfsemina áður en nokkurt barn náði að flytja inn. Sýslumaður samþykkti kröfuna á föstudaginn en til stóð að þangað flyttu börn á næstu vikum. Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, staðfestir þetta við mbl.is.
Líkt og fram kom í byrjun nóvember hóf vistheimili fyrir ungmenni í fíknivanda starfsemi um miðjan október. Ekkert barn hefur enn verið vistað þar. Heimilið átti að vera fyrir tvö til þrjú ungmenni sem hafa verið í neyslu og þurfa hæga aðlögun út í samfélagið að lokinni meðferð.
„Það hryggir Barnaverndarstofu gríðarlega að andstaða nágranna gegn því að þessi börn fengju eðlilegt heimili var svo mikil að þeir kröfðust lögbanns á starfsemina áður en að nokkurt barn náði að flytja inn. Sýslumaður samþykkti því miður kröfuna á föstudaginn,“ segir Heiða.
„Lögbannið byggir á gríðarlegum misskilningi á eðli starfseminnar. Hins vegar liggur einnig fyrir að það myndi taka marga mánuði að fá lögbanninu hnekkt fyrir dómi og að stofan myndi innan þess tíma missa húsnæðið. Því hefur Barnaverndarstofu ekki forsendur fyrir því að mótmæla lögbanninu fyrir dómi. Það er sorglegt að borgarar landsins séu svona þröngsýnir gagnvart því að börn sem eru að koma úr meðferð fái að búa í venjulegum íbúðargötum, en það er forsenda þess að hægt sé að styðja áfram við börn sem hafa tekið á sínum vanda og vilja standa sig áfram,“ segir Heiða.
Fyrir lá að finna þyrfti nýtt húsnæði undir starfsemina þar sem til stendur að selja húsið. Leitin stendur enn yfir að sögn Heiðu og er stefnt að því að hefja starfsemina um leið og hægt er að flytja í nýtt húsnæði.
Uppfært 7. desember 2018 kl. 10:48
Eftirfarandi yfirlýsing barst mbl.is vegna lögbannskröfu íbúa í Norðlingaholti.
Undirritaður sat í stjórn íbúasamtaka Norðlingaholts frá 2009 sem varamaður, varaformaður og síðast formaður stjórnar til ársins 2012.
Nýr formaður og stjórn hefur látið undir höfuð leggjast að uppfæra skráningu félagsins allt frá því ári og til dagsins í dag.
Hvort aðalfundur hefur verið haldin eða ekki síðan þá er ókunnugt um en ljóst er að þegar ég umdirritaður hætti setu í stjórninni að þá tók þáverandi varaformaður, Carl Jóhann Gränz við stöðu formanns.
Það að undirritaður dragist nú, í desember 2018, inn í umræðu um lögbannskröfu íbúa í Norðlingaholti vegna "heimili fyrir ungmenni í vanda" er því með öllu ómálefnaleg.
Umræðan á samfélagsmiðlum er bæði orðljót og særandi auk þess sem persónulegar upplýsingar sem heimilisföng ótengds fólks eru birt. Þessi skrif og birtingar eru með öllu óviðeiganfi og ekki minnst lítilsækkandi fyrir þá sem þar eiga í hlut. Ég hvet viðeigandi til að fjarlægja ummæli sín og þær persónuupplýsingar sem þar koma fram
Um leið vill éf minna á að ég á börn og barnsmóður í Norðlingaholti sem hafa ekkert til saka unnið og eiga nú á hættu að verða fyrir umtali og gagnrýni sem þau eiga ekki skilið.
Ég hef ég verið búsettur og starfandi í Noregi frá janúar 2014 og engin tengsl haft við íbúasamtök Norðlingaholts annarsvegar og lögbannskröfuna hinsvegar.
Þeir, sem óska nánari útlistingu kröfunnar, ættu því að beina spurningum og gagnrýni sinni að þeim sem setja nöfn sín við lögbannskröfuna sem send var til sýslumanns.
Þar að auki skora ég á núverandi stjórn íbúasamtaka Norðlingaholts að uppfæra skráningu félagsins hjá fyrirtækjaskrá skattstjóra, eins og ég hef ítrekað farið fram á síðustu ár en án árangurs.
Virðingafyllst,
Sigurður Rúnarsson.