Kom uppsögnin á óvart

Sveinn Margeirsson.
Sveinn Margeirsson. mbl.is

„Ég veit ekki nákvæmlega til hvaða trúnaðarbrests er verið að vísa,“ segir Sveinn Margeirsson, sem sagt hefur verið upp störfum sem forstjóri Matís vegna trúnaðarbrests, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann uppsögnina hafa komið sér á óvart.

„Ég hugsa að það sé rétt að stjórn Matís og stjórnarformaður svari því,“ segir Sveinn spurður hvað hann telji að verið sé að vísa til. Um sé að ræða ákvörðun stjórnarinnar, sem hún hafi heimild til þess að taka, og eðlilegt sé að hún svari fyrir hana.

„Ég hef allavega alltaf lagt áherslu á það að ná markmiðum Matís, auka verðmæti, bæta matvælaöryggi og bæta lýðheilsu. Ég er alveg meðvitaður um að ég hafi stundum farið óhefðbundnar leiðir til þess en þess hefur stundum þurft.“

Hins vegar ætli hann að leyfa stjórnarformanni Matís að svara fyrir málið að öðru leyti. Aðspurður segir Sveinn að honum hafi verið tilkynnt tikynnt um uppsögnina í gær þar sem hann var staddur erlendis í tengslum við starf sitt.

Sveinn segist aðspurður ekki vita nákvæmlega í hverju meintur trúnaðarbrestur felist. Spurður hvort hann hafi átt von á því þegar hann hélt af stað af landi brott að hann ætti eftir að fá tilkynningu um uppsögn segir hann: „Nei, ég átti það nú ekki.“

„Þetta er bara svona, stjórn í hlutafélagi hefur þetta vald og ég virði það bara,“ segir Sveinn. hann kannast hins vegar ekki við það að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað.

Matís er opinbert hlutafélag sem tók til starfa árið 2007 eftir að þrjár ríkisstofnanir sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, voru sameinaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert