„Ég hef verið kallaður fleiri ljótum nöfnum en ég hef tölu á. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa áður verið kallaður ofbeldismaður,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og formaður Miðflokksins, á Facebook. „Ekkert sem um mig hefur verið sagt í pólitík hefur sært mig eins mikið.“
Tilefni pistils Sigmundar Davíðs er viðtal Kastljóss við Lilju Alfreðsdóttur, en í samtali sex þingmanna á Klaustri bar 20. nóvember var ófögrum orðum farið um Lilju.
„Mér fannst þetta skelfilegt,“ sagði Lilja í viðtalinu. Hún sagðist ennfremur hafa upplifað samtal þriggja þingmanna Miðflokksins sem árás.
„Ég upplifi þetta sem ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn,“ sagði Lilja en þingmennirnir sem um ræðir eru Sigmundur Davíð, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson.
Sigmundur segir Lilju vin sinn og að það sem hafi reynst honum erfiðast við þau mál sem hafi verið til umræðu að undanförnu væri að særa vini hans. Hann segist skilja reiði Lilju.
„Ég var vitaskuld miður mín yfir þessu öllu og vildi tala við Lilju um það beint, enda var mitt að gera það. Auk þess að ítreka afsökunarbeiðni hefði ég viljað segja Lilju betur frá heildarmynd samræðnanna þetta kvöld. Því miður hafa bútar verið klipptir úr upptökunum á þann hátt að heildarmynd og samhengi riðlast. Það á meðal annars við um þann þátt sem snýr að Lilju.“
Áður segist hann hafa haft mörg orð um mannkosti Lilju og kallað hana frábæra, eins hann geri alltaf þegar hann tali um hana.
„Í einkasamtalinu sem tekið var upp og dreift er sótt að mér fyrir að halda hlífiskildi yfir Lilju. Þar tek ég undir að henni sé ekki treystandi pólitískt,“ segir Sigmundur, og að nýlegir atburðir hafi haft áhrif á það.
Það að hafa í einkasamtali sagt um annan stjórnmálamann í öðrum flokki að ekki væri hægt að treysta honum pólitískt og viðurkenna að viðkomandi hefði spilað með þá réttlætti ekki „slíkan stimpil,“ skrifar Sigmundur Davíð, og á væntanlega við ofbeldismannsstimpilinn.
„Lilju Alfreðsdóttur óska ég alls hins besta hér eftir sem hingað til. Mér þykir mjög vænt um hana og ber mikla virðingu fyrir henni sem manneskju og stjórnmálamanni.“