Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Sigurð Ragnar Kristinsson í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri verktakafyrirtækisins SS verks ehf.
Sigurður var einnig dæmdur til að greiða 137 milljóna króna sekt til ríkissjóðs. Hún skal greiðast innan fjögurra vikna en annars skal hann sitja í fangelsi í 360 daga, að því er Vísir greindi frá.
Sigurður neitaði sök að hluta við fyrirtöku málsins í maí en gekkst þó við hluta þeirra brota sem honum voru gefin að sök samkvæmt ákæru.
Í þeim hluta ákærunnar er Sigurður neitaði voru honum gefin að sök skil á röngum virðisaukaskattskýrslum þar sem innskattur af þjónustukaupum var offramtalinn á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga og um leið vanframtalinn virðisaukaskattur.
Sá hluti ákærunnar sem Sigurður gekkst við í héraðsdómi varðaði annars vegar vanskil á virðisaukaskatti á árinu 2015. Hins vegar að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á skilagrein félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna á tilteknu tímabili.