Forsvarsmenn vefsíðunnar Tekjur.is hafa eytt gagnagrunni síðunnar. Persónuvernd hefur fengið staðfestingu á því frá lögmanni hennar.
Forsvarsmennirnir höfðu frest til gærdagsins til að eyða gagnagrunninum og þeim upplýsingum sem þeir kynnu að hafa undir höndum.
Samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort sekta eigi fyrirtækið Viskubrunn ehf. fyrir að gera gagnagrunn með upplýsingum úr skattskrám fyrir árið 2016 aðgengilegan á Tekjur.is.
Persónuvernd hóf athugun að eigin frumkvæði eftir að vefsíðan opnaði 12. október þar sem veittur var aðgangur gegn gjaldi að upplýsingum um tekjur allra einstaklinga á árinu 2016 samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra. Stjórn Persónuverndar kvað í framhaldinu upp úrskurð þar sem kom fram að forráðamenn vefjarins hafi ekki haft heimild til að birta upplýsingarnar og krafðist Persónuvernd að síðunni yrði lokað.