„Útboðinu er lokið og verður tilkynnt um niðurstöðuna á næstunni. Búast má við að framkvæmdir hefjist svo á nýju ári,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins um útboð vegna framkvæmda á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.
Er um að ræða tvö verkefni, annars vegar hönnun og verkframkvæmd vegna breytinga á flugskýli 831 og hins vegar hönnun og byggingu sjálfvirkrar þvottastöðvar fyrir flugvélar. Breytingarnar á flugskýli 831 munu felast í endurnýjun á hurð flugskýlisins og rafkerfi sem flugvélar tengjast við.
Flugvélaþvottastöðin sem hanna á og reisa verður sjálfvirk þvottastöð og nýtist hún einkum við að skola sjávarseltu af kafbátaleitarvélum Atlantshafsbandalagsins, NATO.
Flugskýli Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli hefur verið notað fyrir P-3 Orion eftirlitsflugvélar, sem hafa haft það verkefni að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta í Norður-Atlantshafi. Skýlið rúmar hins vegar ekki nýja tegund eftirlitsvéla, svonefndar P-8 Poseidon, og því þarf að ráðast í breytingarnar. Nýju vélarnar eru byggðar á Boeing 737-800 og eru þær búnar helstu nýjungum í könnunarbúnaði.