Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár hefur verið samþykkt á Alþingi með 32 atkvæðum gegn 3.
Þriðju og síðustu umræðu um frumvarpið lauk fyrir hádegi í dag.
„Staða ríkissjóðs hefur í raun aldrei verið betri,“ sagði Bjarni Benediktsson um atkvæðagreiðsluna. „Landsframleiðslan aldrei mælst hærri. Við höfum verið að lækka skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina.“
Hann bætti við að með fjárlagafrumvarpinu sé verið að leggja grunn að því að viðhalda því góða ástandi sem hafi verið í efnahagsmálum í landinu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, lýsti eftir samstarfsvilja hjá ríkisstjórninni og sagðist reiðubúin til að fara í samvinnu í stórum málum sem þurfi að vinna. „Við höfum ennþá verk að vinna, ekki síst á sviði fiskveiðistjórnunar, núna þegar Hæstaréttardómur féll í gær sem að mínu mati veikir stöðu þjóðarinnar þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni. Þetta allt hefur þýðingu, meðal annars inn í fjárlög.“
Hún sagði forgangsröðun ríkisstjórnarinnar vera þá að fresta útgjöldum til öryrkja og eldri borgara með því að stórlækka veiðigjöld á útgerðina.