Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist hafa fengið fjölda spurninga „um enn eitt hneykslið í íslenskum stjórnmálum sem hefur ratað í heimsfréttirnar“, en hún er stödd á þingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga í Kaupmannahöfn.
Hún segir að „hegðun nokkurra þingmanna“ hafi haft áhrif á trúverðugleika Íslendinganna á þinginu sem boðberar jafnréttis á alþjóðavettvangi. Vísar hún þar í Klaustursmálið.
„Það er sárt og óþolandi þó ég hafi aldrei verið sannfærð um að við værum sú jafnréttisþjóð sem við gefum okkur út fyrir að vera á tyllidögum! Hættum að láta eins og við séum með þetta og tökum til í eigin ranni, einungis þannig getum við farið í trúboð um heiminn,“ skrifar hún í vikulegum pistli sínum.
„Við megum aldrei sætta okkur við niðurlægjandi tal um minnihlutahópa, slíkt er ofbeldi í sjálfu sér. Þegar hatursfull orðræða líðst gefur það leyfi til mismununar í launum, stigveldi og elur á beinu ofbeldi.“
Í pistlinum talar hún einnig um að nýfrjálshyggjunni hafi verið hafnað á þinginu og „því hreðjataki sem stórfyrirtæki hafa á lífsgæðum fólks og möguleikum til framfærslu“.
Drífa var kjörin varamaður í stjórn sambandsins í gær og sat í framhaldinu óvænt stjórnarfund. Gengið verður til kosninga í dag um ályktanir þingsins og viðbótar- og breytingatillögur sem liggja fyrir.
Málefnastoðirnar eru fjórar: