Fjármála- og efnahagsráðherra fer fram á 56,6 milljarða hækkun fjárheimilda ríkisins á yfirstandandi ári í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi í gær.
Meginhluti fjárhæðarinnar, um 48 milljarðar króna, er í greinargerð frumvarpsins skýrður sem „tæknileg útgjaldamál og framsetningarbreytingar“ sem stafar af breyttri reikningsskilaaðferð. Er annars vegar um að ræða breytingar á uppgjöri á lífeyrisskuldbindingum (31 milljarður) og hins vegar breytta framsetningu vegna afskrifta skattkrafna (18,2 milljarðar).
Að þessu undanskildu nemur hækkunin 8,6 millljörðum vegna nokkurra útgjaldamála ráðuneyta. Sú fjárhæð nemur 1% fjárlaga þessa árs. Innifalin í fjárhæðinni er 3,2 milljarða hækkun vegna yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum og sé hún undanskilin nemur frávikið í hefðbundnum rekstri ríkissjóðs 0,7%, að því er segir í greinargerðinni.
Lögum samkvæmt eru í frumvarpi til fjáraukalaga aðeins gerðar tillögur um breytingar á fjárheimildum til að mæta útgjöldum ríkissjóðs sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga og teljast orðin brýn eða óhjákvæmileg, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.