Snúa þarf við hverri krónu

Bjarni Benediktsson á Alþingi.
Bjarni Benediktsson á Alþingi. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi að það væri sóknarfrumvarp sem muni leiða til betri tíma fyrir alla landsmenn.

Umræðunni lauk fyrir hádegi en greidd verða atkvæði um frumvarpið síðar í dag. 

Hann sagði að staða ríkissjóðs sé traustari en verið hefur í langan tíma, landsframleiðslan hafi aldrei verið meiri og að skuldir ríkissjóðs lækki hratt. Á næsta ári náist markmið ríkisstjórnarinnar varðandi skuldaviðmið. Bætt staða gerir henni kleift að ráðast í uppbyggingu innviða.

Bjarni sagði ánægjulegt að geta afgreitt fjárlagafrumvarpið jafntímanlega og raun ber vitni og nefndi að munurinn á sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar í umræðunni á þinginu hafi verið athyglisverður, sérstaklega varðandi útgjöldin en einnig tekjuhliðina.  

„Við erum að auka frumgjöldin um tæplega 5% sem er töluvert mikil útgjaldaaukning. Að því leytinu til eiga þeir inni fyrir orðum sínum sem hér hafa komið upp og sagt menn vera að gæta sín í útgjaldavextinum,“ sagði Bjarni.

Hann benti aftur á móti á að útgjöld sem hluti af landsframleiðslu séu ekki að vaxa. Hann sagði góða innistæðu fyrir því gera betur á mörgum sviðum, þar á meðal í samgöngumálum og heilbrigðismálum.

Vöxtur útgjalda ekki jafnhraður og áður

Hann sagði að í fjárlögunum sé verið að draga úr álögum á atvinnustarfsemina í landinu um átta milljarða með því að lækka tryggingagjaldið. Einnig geri ríkisstjórnin tilslakanir í bótakerfum og skattinum. Persónuafsláttur verði hækkaður umfram það sem vænst er í verðbólgu og að barnabætur hækki til þeirra sem hafa minnst á milli handanna.

„Þrátt fyrir öll orðin sem hafa fallið hér í þinginu þá erum við að auka við fjármögnun almannatryggingakerfisins sem mun gera okkur kleift að styðja betur við þá sem standa höllum fæti í samfélaginu,“ sagði hann og nefndi að aldrei áður hafi jafnmikið fjármagn verið lagt í almannatryggingakerfið.

Varðandi þróun útgjaldanna sagði hann að ekki sé hægt að hafa væntingar um að vöxtur þeirra verði verði jafnhraður og undanfarin ár hjá ríkinu. Þess vegna þurfi að hámarka nýtingu þeirra fjármuna sem eru til staðar. Snúa þurfi við hverri krónu áður en henni er ráðstafað.

Bjarni talaði um nýjan tón í þinginu miðað við síðustu ár. Ekki sé verið að kalla eftir frekari útgjöldum því þingmenn geri sér betur grein fyrir því að „öll okkar verkefni verða ekki bara leyst með því að auka við fjármagnið á bak við þau“.

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sagði frumvarpið stefnulaust

„Þessi fjárlög og fjármálaáætlun sem þessi fjárlög byggja á eru í einu orði sagt, miðað við lög um opinber fjármál, stefnulaus,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Hann sagði enga kostnaðaráætlun vera fyrir hendi og að markmiðin séu mjög óskýr. Einnig nefndi hann að vissulega væri verið að setja metfjárhæð í umhverfismálin en að verkefnið sé samt gríðarlega mikið. Ríkisstjórnin sé að taka skref í umhverfismálum en langt frá því nægilega stór miðað við þær framtíðarhorfur sem blasa við okkur. Nefndi hann kaup á kolefniskvóta sem dæmi.

„Gagnsæi þessa fjármálafrumvarps er bókstaflega ekki neitt. Það kemur manni sífellt á óvart að heyra hvernig ýmsar útfærslur á tölum í fjárlögunum eru síðan túlkaðar í ráðuneytunum.“

Hann bætti við: „Af hverju ætti Alþingi að samþykkja fjárlög þar sem við vitum ekki hvað tölurnar þýða?“

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áformin ekkert breyst

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, talaði um mikilvægi þess að jafnvægisvöxtur náist á næstu misserum. Hann nefndi að hagvexti sé spáð 2,5 % 2019 í stað 2,7 samkvæmt fyrri spá í júní og forsendum í fjárlagafrumvarpinu. Heildaráhrifin af þessu við aðra og þriðju umræðu séu í raun og veru engin á lokaniðurstöðu um 1% afgang af vergri landsframleiðslu. Áformin um að halda áfram að byggja innviði hafi ekki breyst.

„Umræðan verður oft um tölur á blaði en við vitum að á endanum snýst þetta um fólk og við þurfum að huga frekar að verkefnum eins og uppbyggingu hjúkrunarheimila,“ sagði Willum og nefndi einnig að huga þurfi betur að öryrkjum og eldri borgurum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka