500 ára bátsflak finnst á botni Þingvallavatns: Elsta bátsflak sem þekkt er hér á landi

Flakið er af 4-5 metra löngum báti með hefðbundnu norrænu …
Flakið er af 4-5 metra löngum báti með hefðbundnu norrænu lagi. Hann er nærri 500 ára gamall. Ljósmynd/Erlendur Bogason

Bátur sem fannst á botni Þingvallavatns í haust hefur verið aldursgreindur og er talið að hann sé frá 16. öld eða tæplega 500 ára gamall. Erlendur Bogason, kafari og ljósmyndari, fann bátinn á 4-5 metra dýpi í Vatnsvikinu þegar hann var að mynda fyrir Náttúruminjasafn Íslands.

„Samkvæmt aldursgreiningu er um að ræða elsta bátsflak sem þekkt er hér á landi,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. Miðað við 95% líkur er báturinn frá tímabilinu 1482-1646 samkvæmt kolefnisgreiningu.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur hefur haft umsjón með frumathugun á bátnum, en fleiri sérfræðingar og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum hafa komið að málinu. Tilskilinna leyfa var aflað og báturinn myndaður í bak og fyrir. Hann verður falinn Þjóðminjasafni Íslands til vörslu og umsjónar lögum samkvæmt.

Í umfjöllun um skipsfund þennan í Morgunblaðinu í dag segist Hilmar vona að unnt verði að leggja í kostnað sem því fylgir að ná bátnum upp af botni vatnsins og forverja hann.

„Báturinn er mjög heillegur, um fimm metra langur og hefur varðveist ótrúlega vel í vatninu,“ segir Hilmar. „Hann er að hluta hulinn mó og við vitum að land hefur sigið þarna, en báturinn fannst á dýpi sem stemmir við 4-5 metra sig frá landnámi. Fleiri hafa rekist á bátinn af hendingu og á þessum slóðum eru kafarar oft á ferð. Það er því brýnt að ná bátnum upp og koma honum í rannsókn og í vörslu áður en tjón verður. Það hvarflaði að okkur að þarna væri kuml, en svo er ekki. Þetta er eigi að síður mjög forvitnilegur fundur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert