Hvað er það sem fær fólk til að taka þátt í hindrunarhlaupi í náttúru Íslands sem reynir á allt sem það á og meira til? „Fólk vill ýta sjálfu sér eins langt og mögulegt er,“ segir Jonathan Fine um Spartan-hlaupið sem um 500 manns frá fjörutíu löndum taka nú þátt í við Hveragerði.
Þetta er í annað sinn sem hlaupið er haldið hér á landi en það fer einnig fram með sama fyrirkomulagi um allan heim. Hlaupið er stigskipt. Brautin, sem er ofan við Hveragerði, er með fjölmörgum hindrunum. Sumir hlaupa hana einu sinni en aðrir hlaupa hana eins oft og þeir geta á einum sólarhring.
Jonathan segir að veðrið í dag sé gott. Þeir sem ætla að hlaupa í 24 klukkutíma í ultra-þætti hlaupsins, lögðu af stað um hádegi í dag. Þeir sem ætla að fara í gegnum brautina einu sinni leggja af stað klukkan 15. Á leiðinni þurfa þeir að fara yfir um 20 hindranir af ýmsum toga.
Hlaupið hefst og endar við Hamarshöllina í Hveragerði. Umfangið er það mikið að fólk hefur lagt bílum sínum í útjaðri bæjarins og er svo ferjað með rútum að íþróttahöllinni.
„Fólk vill vita hvað það er fært um að gera, líkamlega og andlega,“ segir Jonathan. „Aðstæðurnar hér eru erfiðar, það er vindur og kalt, og fólk vill sjá úr hverju það er gert.“
Keppendur munu ljúka sólarhringshlaupinu um hádegi á morgun.