Fræðafólk við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum ætlar ekki að taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, á sæti í nefndinni. Þetta kemur fram í bréfi sem fólkið hefur sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis. Fréttavefurinn Kjarninn greinir frá þessu.
Fræðafólkið segir ummælin sem þingmenn létu falla á barnum Klaustrinu á dögunum vera þeim „áfall og þungbært að verða vitni að þeim niðurlægjandi og fordómafullu ummælum sem þar voru viðhöfð um fatlað fólk, einkum fatlaðar konur sem við virðum mikils og eigum náið og gott samstarf við í baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu fatlaðs fólks.“
Ennfremur segir í bréfinu að þeir „djúpstæðu fordómar, mannfyrirlitning, hroki og vanvirðing sem þar birtast í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsetra hópa gerir það að verkum að við munum ekki taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan að Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni.“
Rannveig Traustadóttir, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarsetursins, Hann Björg Sigurjónsdóttir prófessor, James G. Rice lektor, Snæfríður Þóra Egilsson prófessor og Stefán C. Hardonk lektor rita undir bréfið en afrit af því var sent á alla fulltrúa sem sæti eiga í velferðarnefnd samkvæmt fréttinni.