Skrifstofa Alþingis er komin með hljóðupptökurnar af samtali þingmannanna sex á barnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn. Stundin greinir frá því að Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtal þingmannanna, hafi afhent Alþingi upptökurnar um helgina.
Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis, segir í samtali við mbl.is að um sjö hljóðskrár sé að ræða og eru þær alls um þrjár klukkustundir að lengd. Þórhallur segir að málið sé enn á undirbúningsstigi og ekki sé búið að boða þingmenn eða aðra sem tengjast málinu á einhvern hátt, í viðtöl vegna umfjöllunar siðanefndar.
Forsætisnefnd fjallaði í síðustu viku um mál þingmannanna sem viðhöfðu gróft og niðrandi orðalag um samþingmenn sína og minnihlutahópa í samfélaginu á barnum Klaustri og vísaði því til siðanefndar Alþingis. Þetta er í fyrsta sinn sem nefndin kemur saman frá því að hún var stofnuð í fyrra.
Nefndin er búin að koma saman að minnsta kosti einu sinni frá því málinu var vísað til hennar og sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is fyrir helgi að mikil vinna fari í undirbúning málsins. Auk hennar skipa þau Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, doktor í heimspeki og umboðsmaður barna, siðanefnd Alþingis.