Farþegar sitja fastir í sex flugvélum á Keflavíkurflugvelli en ekki er hægt að hleypa þeim inn í flugstöðvarbygginguna vegna ofsaveðurs. Auk þess situr áhöfn föst í sjöundu vélinni.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að undir kvöld hafi allar landgöngubrýr verið teknar úr notkun. Það sé gert þegar vindhraði fer yfir 25 m/s.
Þjónustufyrirtæki sem eru með stigabíla á flugvellinum hafa auk þess tekið þá úr notkun.
Guðjón segir að hægt sé að lenda á flugvellinum en bendir á að á vefsíðu Isavia sé viðvörun um að flug gæti raskast vegna veðurs.
Guðjón segir að farþegum verði hleypt frá borði þegar vind lægi en samkvæmt vefsíðu Veðurstofunnar mun lægja á næsta klukkutímanum.
Vegna þessa eru töluverðar seinkanir á flugi frá Keflavíkurflugvelli í kvöld.