Allir landgangar á Keflavíkurflugvelli eru nú komnir í notkun. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. Farþegar biðu í 13 flugvélum á Keflavíkurflugvelli þegar mest var í morgun og höfðu þá átta vélar komið inn til lendingar, auk fimm flugvéla frá Icelandair og WOW air sem hluti farþega var kominn um borð í áður en veður versnaði.
„Nú eru landgangarnir komnir í notkun og það er unnið að því að koma farþegum frá borði,“ segir Guðjón. „Nú er bara unnið hart að því að koma öllu í lag.“
Töluverðar tafir hafa orðið á millilandaflugi í morgun vegna veðurs og innanlandsflug hefur legið niðri. Búið er að aflýsa öllu flugi til Ísafjarðar og Vestmannaeyja í dag og athuga á með flug til Egilsstaða og Akureyrar klukkan 12.30.
Einu flugi var aflýst frá Keflavíkurflugvelli en töluvert er um tafir og aðeins ein flugvél náði að komast í loftið áður en veður versnaði og var það vél Icelandair á leið til München.
Gul viðvörun er í gildi fyrir Faxaflóa, Suðurland, Breiðafjörð og Norðurland eystra og segir veðurfræðingur Vegagerðarinnar að búast megi við hviðum allt að 45 m/s undir Hafnarfjalli fram yfir hádegi, en 35 m/s eftir það. Fram undir hádegi verði einnig varasamt á Reykjanesbrautinni með stormi á hlið og hviðum 35 m/s. Á norðanverðu Snæfellsnesi nær vindur í hámarki um hádegi.