Játa að hafa ráðist á dyraverði

Annar hinna ákærðu gekk þeim mun lengra í árás sinni …
Annar hinna ákærðu gekk þeim mun lengra í árás sinni með þeim afleiðingum að dyravörður sem varð fyrir árásinni lamaðist fyrir neðan háls.

Tveir karlmenn sem ákærðir eru fyrir líkamsárás á dyraverði við skemmtistaðinn Shooters aðfaranótt sunnudags 26. ágúst í ár játa sök í öðrum tveggja ákæruliða. Í liðnum er þeim gefið að sök að hafa framið sérstaklega hættulega líkamsárás á dyraverði, sem fól í sér ítrekuð hnefahögg og hnéspörk í andlitið. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Mennirnir komu í fylgd lögreglu í héraðsdóm. Annar þeirra, sá sem borinn er þyngri sökum, hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í sumar og kom því frá Litla-Hrauni. Hinn gengur laus.

Mennirnir voru þungir á brún í réttarsalnum. Þeir eru Íslendingar af erlendu bergi brotnir. Hinn fyrrnefndi er rétt um þrítugt en hinn eldri á fertugsaldri. Annar þeirra á yfir höfði sér langan fangelsisdóm ef hann er fundinn sekur um seinni lið ákærunnar.

Með því að játa fyrri ákærulið er gengist við því að hafa veist að öðrum brotaþolanum, þeim sem ekki hlaut lífshættulega áverka.

Hafnar því að hafa valdið lömun

Öðrum ákærulið var hafnað en þó gekkst sá, sem sakaður er um alvarlegri brot, við hnefahöggum í andlit, sem þar eru nefnd. Ákæruliðurinn snýr að alvarlegri hluta ákærunnar, árás, sem leiddi til þess að brotaþoli lamaðist fyrir neðan háls. Hafnar hann því ekki að hafa framið hana heldur vill meina að afleiðingarnar hafi ekki verið slíkar sem segir í ákærunni.

Í þessum lið er hinum ákærða gefið að sök að hafa veitt brotaþola nokkur hnefahögg og spörk í andlitið þar sem hann lá eftir að hafa fallið fram fyrir sig. Árásin hafði þannig sviplegar afleiðingar fyrir brotaþola: margþætt brot í fimmta hryggjarhálslið og mænuáverka fylgdi lömun fyrir neðan háls.

Mönnunum er gefið að sök að hafa framið „sérstaklega alvarlega …
Mönnunum er gefið að sök að hafa framið „sérstaklega alvarlega líkamsárás“ við skemmtistaðinn Shooters í ágúst.

Krafist 123 milljóna í bætur

Bótakröfurnar tengdar fyrsta ákærulið voru samþykktar af hvorum tveggja hinna ákærðu, þó með þeim hætti að upphæðin sjálf verði lögð aftur í mat dómsins en ekki samþykkt eins og hún er, en krafan er upp á 2,5 milljónir króna.

Bótakröfurnar fyrir seinni liðinn eru mun hærri en þar lamaðist brotaþoli, eins og segir. Hinn ákærði hafnar liðnum sem heild, að undanskildum hnefahöggum sem hann gengst við, og hafnar þar af leiðandi bótakröfunum, sem eru upp á 123 milljónir.

Verjendur mannanna koma til með að skila greinargerð til dómsins á næstu vikum. Aðalmeðferð málsins hefst 11. janúar 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert