Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ætlun hans hafi aldrei verið að rengja frásögn Báru Huldar Beck eða draga úr sínum hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum.
Bára Huld Beck skrifaði grein á Kjarnann í morgun þar sem hún segir málsatvikalýsingu Ágústs Ólafs vegna framkomu hans í hennar garð síðastliðið sumar ekki í samræmi við upplifun hennar af atvikinu.
Ágúst hefur tekið sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum í kjölfar þess að trúnaðarnefnd flokksins veitti honum áminningu vegna framkomu hans í garð Báru í júní.
„Misræmið sem hún rekur í svari sínu byggir á ólíkri upplifun. Ég lagði mikla áherslu á í okkar samtölum og í framburði mínum hjá trúnaðarnefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upplifun er auðvitað aðalatriðið í þessu máli,“ kemur fram í tilkynningu frá Ágústi Ólafi.
Hann segist vera að leita sér faglegrar aðstoðar vegna hegðunar sinnar. „Ég bið Báru Huld enn og aftur innilegrar afsökunar á framkomu minni og þeirri vanlíðan sem ég hef valdið henni.“