Mikil lækkun olíuverðs eykur líkur á að ferðaþjónustan muni vaxa í takt við spár. Það gæti reynst þungvægt. Greining Analytica fyrir samgönguráðuneytið bendir þannig til að flugfargjöld hafi mikil áhrif á fjölda skiptifarþega og ferðamanna.
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, segir aðspurður að mikil lækkun olíuverðs undanfarið minnki þörf fyrir mikla hækkun flugfargjalda. Með hliðsjón af áhrifum flugfargjalda á eftirspurn eftir millilandaflugi auki þessi þróun líkurnar á áframhaldandi vexti í fluginu.
Enn eitt metið í ferðaþjónustunni féll í nóvember þegar um 150 þúsund brottfarir erlendra ferðamanna voru frá Keflavíkurflugvelli. Útlit er fyrir metfjölda ferðamanna í desember og horfir Ferðamálastofa m.a. til margra frídaga yfir hátíðarnar.
Þær upplýsingar fengust frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) að horfur séu á 3-5% vexti greinarinnar á næsta ári. Gangi spáin eftir gæti ferðamönnum fjölgað um vel á annað hundrað þúsund á næsta ári. SAF hafa þó þann fyrirvara að óvissa um flugframboð sé mikill óvissuþáttur. Sama gildi um kjarasamninga.
Með því að rekstrarskilyrði í fluginu hafi batnað undanfarið, einkum vegna lækkandi olíuverðs, hafi líkur á hækkun flugfargjalda minnkað, að því er fram kemur í imfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.