Vaðlaheiðargöng verða formlega opnuð 12. janúar á næst ári. Veggjöld um göngin verða innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli og er grunngjald fyrir bíla undir 3,5 tonnum 1.500 krónur á hverja ferð. Hins vegar verður hægt að fá allt upp í rúmlega helmings afslátt ef keyptar eru fleiri ferðir fyrir fram.
Mögulega verður unnt að opna göngin fyrir umferð undir lok desember en það ræðst þó af því hvernig miðar við lokafrágang ganganna, að því er fram kemur í tilkynningu vegna opnunarinnar. Ákveðið hefur verið að ef göngin verða opnuð fyrir umferð fyrir jól verður gjaldfrítt í þau til 2. janúar 2019.
Göngin liggja á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Heildarlengd þeirra með vegskálum er um 7,5 km. Til samanburðar eru Vestfjarðagöng – veggöng undir Breiðadals og Botnsheiði – samtals 9,1 km, lengri leggur Héðinsfjarðarganga 7,1 km og Hvalfjarðargöng 5,8 km. Vegir að göngunum austan og vestan Vaðlaheiðar eru samtals 4,1 km. Þjóðvegurinn frá Akureyri til Húsavíkur styttist um 16 kílómetra með göngunum.
Frekari upplýsingar um veggjöld er að finna á veggjald.is eða tunnel.is. Myndavélar eru í göngunum sem taka myndir af númerum ökutækja sem ekið er um göngin. Veggjaldið skuldfærist sjálfkrafa á það greiðslukort sem skráð er við bílnúmerið.