„Ágúst Ólafur reyndi ekki að kyssa mig tvívegis heldur ítrekað. Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neitaði honum þá niðurlægði hann mig með ýmsum hætti.“
Þetta kemur fram í pistli Báru Huldar Beck á Kjarnanum þar sem hún svarar yfirlýsingu Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Ágúst Ólafur hefur farið í tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum í kjölfar þess að trúnaðarnefnd flokksins veitti honum áminningu vegna framkomu hans í garð konu í miðbæ Reykjavíkur.
Bára segir að málsatvikalýsing Ágústs sé ekki í samræmi við upplifun hennar af atvikinu. Þá upplifun hafi hún rakið fyrir honum og hann gengist við að hún sé rétt. Auk þess rakti hún hana fyrir trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar og Ágúst Ólafur gerði engar athugasemdir við málavexti.
„Þeir málavextir eru raktir í skriflegri niðurstöðu nefndarinnar og verða þar af leiðandi vart hraktir,“ skrifar Bára. Hún segist knúin til að greina frá því sem rangt er í yfirlýsingu hans vegna þess að Ágúst Ólafur kjósi að gera minna úr atvikinu en hann hafi áður gengist við. „Ég vil líka taka það skýrt fram að það vakti aldrei fyrir mér að gera þetta mál opinbert. Sú ákvörðun var hins vegar tekin úr mínum höndum,“ skrifar Bára.
Hún skrifar að eftir að hann reyndi ítrekað að kyssa hana og niðurlægði hana hafi hún fylgt honum út en hann hafi ekki yfirgefið skrifstofu Kjarnans þegar hún bað hann um það. „Ég fylgdi honum á endanum ákveðin út með þeim orðum að ég treysti mér ekki til að vera í sama rými og hann. Hann lét samt ekki segjast og hélt þvingandi áreitni sinni áfram í lyftunni á leiðinni út,“ skrifar Bára.
Bára er blaðamaður á Kjarnanum en Ágúst Ólafur er fyrrverandi hluthafi í Kjarnanum. Hún skrifar að það, auk þess að hann hafi verið í opinberu sambandi með annarri konu, hefði átt að gera það að verkum að hann hefði ekki átt að geta misskilið aðstæður.
Bára skrifar að það sé ábyrgðarhlutur að senda frá sér yfirlýsingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. Sé slík yfirlýsing skrumskæld á einhvern hátt sé hætt við að röng og jafnvel varhugaverð skilaboð séu send út í samfélagið.
„Yfirlýsing Ágústar Ólafs er ekki í samræmi við málavexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en tilefni var til. Þetta var ekki bara misheppnuð viðreynsla, heldur ítrekuð áreitni og niðurlæging,“ skrifar Bára.
Pistilinn er hægt að lesa í heild sinni á Kjarnanum.
„Stjórn og stjórnendur Kjarnans standa, og hafa staðið, 100 prósent á bak við starfsmann fyrirtækisins sem var í sumar þolandi áreitni þingmanns.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu Kjarnans vegna málsins.
Þar segir að eftir að fyrir lá viðurkenning geranda á því sem átti sér stað, en enginn sýnilegur vilji til að bregðast við hegðun sinni með öðrum hætti, hafi þolandi ákveðið að koma vitneskju um áreitnina á framfæri við stjórnmálaflokk geranda. Þar var málinu beint í farveg nýstofnaðrar trúnaðarnefndar.
Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu 27. nóvember síðastliðinn að þingmaður flokksins hefði brotið gegn tveimur siðareglum hans. Þingmaðurinn hafi auk þess, með framkomu sinni, sniðgengið stefnu flokksins gegn einelti og áreitni og bakað með því félögum sínum í flokknum tjóni. Fyrir þessi brot, gegn starfsmanni Kjarnans, sætti þingmaðurinn áminningu trúnaðarnefndar.