Íslendingar nota fimmfalt meira af amfetamínskylda efninu metylfenídati en Danir og Norðmenn. Slík lyf eru notuð við ADHD, þar á meðal Concerta. Gríðarleg aukning hefur verið í notkun þessara efna.
Lyfjafræðingur segir þetta þróun sem Danir og Norðmenn hafi náð halda aftur af en ekki Íslendingar. Ekki er ósennilegt að hún haldist í hendur við ámóta aukningu í notkun svefnlyfsins melótónín.
Mímir Arnórsson, lyfjafræðingur hjá Lyfjastofnun, birti í dag grein um almenna notkun geðlyfja á Íslandi. Í samtali við mbl.is um þessa síauknu notkun á bæði örvandi og slævandi lyfjum segir hann að svefnlyf, eins og melótónín, séu ósjaldan notuð sem mótvægi við örvandi áhrifum ADHD-lyfjanna, eins og Concerta. Þess séu þá dæmi, að börn séu látin taka metylfenídat á daginn og til mótvægis, melótónín á kvöldin til að sofna.
Mímir varar við þessari þróun og bendir á að melótónín sé ekki endilega eins skaðlaust og margir vilja halda fram. Þá brýnir Mímir í greininni fyrir fólki, að túlka tölfræði um lyfjanotkun ekki of lauslega. Um Ísland gildi einfaldlega ólík lögmál þegar rætt er um mikla notkun hinna og þessara lyfja.
Mímir segir að munurinn sé skýr á milli ávanabindandi lyfja og ekki ávanabindandi og að Íslendingar séu á eðlilegu róli í öðrum lyfjaflokkum en þeim sem reynast ávanabindandi.
Einna mesta áherslu leggur Mímir á aukningu í notkun Íslendinga á metylfenídati. „Í sumum flokkum er enginn afgerandi munur á okkur og öðrum en þegar kemur að metylfenídat-lyfjum er eins og við séum bara Voyager 2 að stefna út úr sólkerfinu,“ segir Mímir. Notkun á slíkum lyfjum hefur aukist um 164% á síðustu tíu árum.
Árið 2007 voru 10 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa á dag hérlendis. Þá voru tveir dagskammtar á hverja 1.000 Dani. Þróunin hefur verið sú þaðan af, að nú eru rúmlega 30 dagskammtar á hverja 1.000 Íslendinga en 7,5 á hverja 1.000 Dani. Þannig hefur Ísland stóraukið notkun sína á þessu en Danir ásamt Norðmönnum náð að beisla þróunina, sérstaklega frá árinu 2010. Frá árinu 2010-2017 í Danmörku og Noregi stendur notkunin í stað á meðan hún stóreykst áfram á Íslandi.