Þrumur og eldingar á Suðvesturlandi

Veðurfræðingur segir tíðni eldinganna með meira móti.
Veðurfræðingur segir tíðni eldinganna með meira móti. AFP

Vart hefur orðið við þrumur og eldingar á suðvesturhorni landsins nú síðdegis og samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands mælast eldingarnar nokkuð tíðar.

„Þær mælast í þessum skúrahryðjum sem eru á suðvestanverðu landinu í kjölfarið á lægðinni,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á vakt. Hann segir tíðni eldinganna með meira móti og að óstöðugleiki sé í lofti handan skilanna.

Fjölda eldinga hefur slegið niður á Suður- og Suðvesturlandi.
Fjölda eldinga hefur slegið niður á Suður- og Suðvesturlandi. Kort/Breska veðurstofan

Samkvæmt Teiti má áfram búast við skúrahryðjum í kvöld og í nótt og því gætu þrumur og eldingar haldið áfram að dynja á suðvesturhorninu. „Svo róast allt veður á morgun en versnar aftur á fimmtudag.“

Á vef Veðurstofunnar má finna upplýsingar um forvarnir og viðbrögð vegna eldinga. Þar segir að forðast eigi vatn, hæðir í landslagi og berangur, málmhluti, lítil skýli og stór tré. „Leitið skjóls, ef unnt er, í stærri byggingum eða yfirbyggðu ökutæki úr málmi. Hafið glugga lokaða.“

Leiki grunur á að eldingu slái niður nálægt fólki og það nái ekki að komast í skjól er því ráðlagt að krjúpa niður á kné, beygja sig fram og styðja höndum á hnén, en leggjast ekki flatt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert