Leið Þ-H á Vestfjarðaleið er sá kostur sem helst kemur til greina við uppbyggingu stofnvegakerfis um sunnanverða Vestfirði, að mati Vegagerðarinnar. Leiðin kemur best út við samanburð á öryggi, greiðfærni og styttingu leiða og er hagkvæmari. Valkostagreining Viaplans frá 12. desember breytir ekki þeirri niðurstöðu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Fram kemur að undirbúningur að framkvæmdum við vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness hafi staðið lengi eða allt frá árinu 2004 þegar fyrsta tillaga að matsáætlun var lögð fram. Matsáætlun við endurtekið mat á umhverfisáhrifum var lögð fram í september 2015 og að loknu ítarlegu samráðsferli og rannsóknum var endanleg matsskýrsla lögð fram í febrúar 2017 og gaf Skipulagsstofnun út álit sitt í mars 2017. Þar var lagt mat á 5 valkosti. Frá þeim tíma hefur Vegagerðin unnið í samstarfi við Reykhólahrepp að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps fór þess á leit við Vegagerðina að taka nýjan valkost (leið R) til skoðunar með bréfi dagsettu 17. júlí 2018. Vegagerðin gerði grein fyrir þeim valkosti í greinargerð til Reykhólahrepps í október 2018 þar sem fjallað er um frumathugun á þeim valkosti (leið A3) ásamt samanburði við leiðir Þ-H og D2 og hvernig vikið var frá leið R, að því er segir í tilkynningunni.
Meginmarkmið framkvæmdanna hefur verið að tengja sunnanverða Vestfirði með góðum samgöngum, styttingu vegalengda og uppbygging heilsársvegar með bundnu slitlagi. Fyrirsjáanlegt er að umferð um Vestfjarðaveg í Gufudalssveit aukist umtalsvert á næstu árum. Dýrafjarðargöng verða opnuð 2020 og undirbúningur er hafinn að nýjum heilsársvegi um Dynjandisheiði. Ásamt vegabótum í Gufudalssveit mun því vegalengd milli Reykjavíkur og Ísafjarðar styttast um 50 km.
„Vegagerðin hefur lagt til við Reykhólahrepp að nýr Vestfjarðavegur verði lagður samkvæmt leið Þ-H og er það gert að vel athuguðu máli. Sú framkvæmd er fullfjármögnuð í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem er til umfjöllunar á Alþingi. Velji sveitarstjórn Reykhólahrepps að fara aðra leið sem Vegagerðin telur dýrari er ljóst að sú leið er ekki fjármögnuð að fullu og óvíst hvenær framkvæmdir geti hafist. Aftur á móti leggur Vegagerðin áherslu á að sama hvaða ákvörðun sveitarstjórn Reykhólahrepps tekur að það mun ekki standa á Vegagerðinni að vinna að vegabótum á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit,“ segir í tilkynningunni.