Almenningssamgöngur tryggðar næsta árið

Áætlunarferðir á milli byggðarlaga eru mikilvægar.
Áætlunarferðir á milli byggðarlaga eru mikilvægar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vegagerðin hefur lokið samningum við öll landshlutasamtök sveitarfélaga um almenningssamgöngur á næsta ári, nema Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Þar mun Vegagerðin taka yfir rekstur almenningssamgangna og semja við alla verktaka og Strætó bs. sem hafa annast aksturinn um áframhaldandi þjónustu. Almenningssamgöngur á landsbyggðinni eru því tryggðar næsta árið, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

G. Pétur sagði aðspurður að í samningunum við landshlutasamtök sveitarfélaganna fælist að Vegagerðin kæmi til móts við uppsafnaðan halla á almenningssamgöngunum. Einnig er samkomulag um að vinna á næsta ári að stefnumótun um almenningssamgöngur til framtíðar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins munu stjórnir landshlutasamtaka, sem Vegagerðin semur við, eiga eftir að fara yfir samningana og samþykkja þá fyrir sína hönd. Búist er við að það verði gert á næstu dögum.

Eins og fram hefur komið sagði SSS upp samningnum við Vegagerðina fyrir um ári. SSS hefur höfðað skaðabótamál gegn ríkinu vegna afturköllunar Vegagerðarinnar á sérleyfi vegna aksturs á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. SSS hefur óskað eftir því að málið fái flýtimeðferð. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert